Afstaða Dana kemur á óvart

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Land­læknisembætti Dan­merk­ur ákvað í gær að þar í landi yrði bóluefni lyfjaframleiðandans Janssen ekki notað við kórónuveirunniBólu­efnið er komið í notk­un hér­ á landi og verða sex þúsund manns bólusettir með efninu í Laugardalshöll á morgun.

Aðeins þarf einn skammt af Janssen til að það virki samkvæmt skilgreiningu framleiðandans.

Um miðjan síðasta mánuð ákváðu stjórnvöld í Danmörku einnig að hætta notkun bóluefnis AstraZeneca. Ástæðan fyrir ákvörðunum Dana, hvað varðar hvort bóluefni um sig, er hætta á aukaverkunum í formi blóðtappa sem rannsóknir hafa sýnt fram á.

Taka ákvarðanir á eigin forsendum

Á Íslandi hafa heilbrigðisyfirvöld haldið áfram að nota bóluefni framleiðendanna tveggja.

„Menn taka bara ákvarðanir á sínum eigin forsendum. Ég veit ekki um neitt annað Evrópuland sem ætlar ekki að nota Janssen-bóluefnið til dæmis,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, spurður hverju þessi munur á Íslandi og Danmörku sæti.

„Þetta kemur mér á óvart, þessi afstaða Dana. En menn taka bara ákvarðanir á sínum forsendum, það er eins og það er.“

Laugardalshöll þéttskipuð í bólusetningu.
Laugardalshöll þéttskipuð í bólusetningu. mbl.is/Árni Sæberg

Aukaverkanirnar hjá konum yngri en 55 ára

Heilsu­gæsla höfuðborg­ar­svæðis­ins er far­in að boða karl­menn sem eru yngri en 55 ára í bólu­setn­ingu með bólu­efni AstraZeneca. Áður hafði verið miðað við að ein­ung­is fólk eldra en 55 ára fengi bólu­efnið. 

„Karl­menn á öll­um aldri mega fá bólu­efni AstraZeneca,“ sagði Sig­ríður Dóra Magnús­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri lækn­inga hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins, í sam­tali við mbl.is í morgun.

Þórólfur segir þessa ákvörðun byggða á þeim upplýsingum að alvarlegri aukaverkanir bóluefnisins, þ.e. blóðsega- og blæðingavandamál á borð við blóðtappa, hafi sést á meðal kvenna yngri en 55 ára.

Algengari í Danmörku og Noregi

„En þeir sem eru með blæðingavandamál, hvort sem það eru karlar eða konur, eru ekki boðaðir í bólusetningu með þessu bóluefni. Allir aðrir ættu að geta fengið það, það er allir aðrir karlar og konur niður í 55 ára aldur.“

Þórólfur bendir á að samkvæmt gögnum lyfjastofnunar Evrópu hafi þessi vandamál fylgt einni af hverjum þrjú hundruð þúsund bólusetningum.

„Bretar hafa verið á svipuðu róli og aðrir með jafnvel færri tilfelli. Danir og Norðmenn eru með algengari niðurstöðu af þessum aukaverkunum þannig að á þeim forsendum ákváðu þeir að hætta að nota AstraZeneca-bóluefnið. En þeir eru þeir einu í Evrópu sem ákveðið að hætta notkuninni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert