Sammála sérfræðingum um áfengi en ekki fíkniefni

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra virðist ekki sammála Læknafélaginu eða landlækni um …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra virðist ekki sammála Læknafélaginu eða landlækni um afglæpavæðingu neysluskammta ólöglegra fíkniefna, en vísaði til sérfræðiþekkingar þeirra máli sínu til stuðning er hún var mótfallin áfengisfrumvarpinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ungt fólk á aldr­in­um 18 og 19 ára, sem í dag er óheim­ilt að hafi áfengi við hönd, verður heim­ilt að hafa í fór­um sín­um neyslu­skammta af fíkni­efn­um verði frum­varp Svandís­ar Svavars­dótt­ur heil­brigðisráðherra um af­glæpa­væðingu vörslu neyslu­skammta samþykkt. Þetta ósam­ræmi frum­varps­ins og gild­andi áfeng­is­lög­gjaf­ar er eitt þeirra atriða sem bent er á í um­sögn lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu.

Í um­sögn­inni leggst lög­reglu­stjór­inn á höfuðborg­ar­svæðinu gegn samþykkt frum­varps­ins eins og það hef­ur verið kynnt. „Gengið er lengra í frum­varp­inu en yf­ir­lýst mark­mið ber vott um auk þess sem talið er að skoða verði gaum­gæfi­lega aðra þætti er lúta að mark­miðinu,“ seg­ir í um­sögn­inni.

Heil­brigðisráðherra hef­ur lagt fram frum­varpið þrátt fyr­ir gagn­rýni embætt­is land­lækn­is á fyrri stig­um og leggj­ast embættið og Lækna­fé­lag Íslands (LÍ) nú gegn samþykkt þess í um­sögn­um sín­um. Svandís vísaði hins veg­ar til sjón­ar­miða þess­ara aðila þegar hún sjálf var mót­fall­in samþykkt frum­varps um áfeng­is­sölu árið 2015 og aft­ur 2017.

Var sam­mála í til­felli áfeng­is

Árið 2015 var lagt fram frum­varp 16 þing­manna um breyt­ingu á lög­um um versl­un með áfengi og tób­ak, lög­um um auka­tekj­ur rík­is­sjóðs, áfeng­is­lög­um og lög­um um gjald af áfengi og tób­aki. Var mark­mið lag­anna að auka frjáls­ræði með sölu áfeng­is.

Svandís, sem þá var þingmaður VG, lagðist ein­dregið gegn frum­varp­inu og vísaði til sérþekk­ing­ar annarra máli sínu til stuðnings. „Umboðsmaður barna, Lækna­fé­lag Íslands, embætti land­lækn­is og all­ir þess­ir aðilar tala um að hags­mun­ir barna séu í hættu við samþykkt þessa frum­varps,“ sagði hún meðal ann­ars í þing­ræðu sinni 15. októ­ber 2015. Þá sagði hún það „skeyt­ing­ar­leysi“ að þing­menn leyfðu sér mál­flutn­ing „sem bygg­ir á því að ákv­arðanir þurfi ekki að byggja á rök­stuðningi og þekk­ingu“.

Svandís Svavarsdóttir var sem þingmaður sammála mati lækna.
Svandís Svavars­dótt­ir var sem þingmaður sam­mála mati lækna. mbl.is/Ó​mar Óskars­son

Áfeng­is­frum­varpið fékkst ekki af­greitt úr nefnd og var end­ur­flutt árið 2017. Við til­efnið end­ur­tók Svandís fyrri rök­stuðning. „Hér erum við með umboðsmann barna, Lækna­fé­lag Íslands, embætti land­lækn­is, og all­ir þess­ir aðilar nefna hags­muni barna sér­stak­lega og að þeir hags­mun­ir séu í hættu ef þetta frum­varp verður samþykkt. […] Það að hunsa leiðsögn þess­ara aðila geng­ur ekki að mínu mati öðru­vísi en að vera með afar sterk rök sem halda bein­lín­is hinu gagn­stæða fram.“

Eng­in fyr­ir­heit um átak

Í grein­ar­gerð frum­varps heil­brigðisráðherra er vísað til þeirra laga­breyt­inga sem gerðar voru árið 2001 í Portúgal þar sem aflagðar voru fang­els­is­refs­ing­ar fyr­ir vörslu neyslu­skammta ólög­legra vímu­efna og fleiri laga­breyt­inga. Þetta er sagt hafa gefið góða raun.

Í um­sögn embætti land­lækn­is er aft­ur á móti bent á að af­glæpa­væðing í Portúgal hafi ekki átt sér stað ein og sér. Hins veg­ar var einnig „gerð lang­tíma­áætl­un og ákveðið að fjár­magn til mála­flokks­ins skyldi tvö­faldað yfir fimm ára tíma­bil. Sam­hliða af­glæpa­væðing­unni voru metnaðarfull­ar fjár­fest­ing­ar gerðar í heil­brigðisþjón­ustu og sett fram um­fangs­mik­il heild­ræn stefna.“

mbl.is/​​Hari

Frum­varpið gef­ur hins veg­ar eng­in fyr­ir­heit um sam­bæri­legt átak í mála­flokkn­um hér á landi sam­hliða af­glæpa­væðingu. „Hvergi kem­ur skýrt fram í frum­varp­inu til­laga eða áætl­un um aukn­ar for­varn­ir,“ seg­ir í um­sögn embætti land­lækn­is.

Þá er held­ur ekki að finna í frum­varpi heil­brigðisráðherra, eða grein­ar­gerð sem því fylg­ir, ná­kvæma lýs­ingu á því hvað neyslu­skammt­ur sé. Vekja bæði LÍ og lög­reglu­stjór­inn at­hygli á þessu og vara við þeirri aðferðafræði sem ligg­ur að baki laga­setn­ingu sem heim­il­ar ráðherra að skil­greina hvað sé neyslu­skammt­ur í reglu­gerð.

Hafa áhyggj­ur af ungu fólki

LÍ „leggst ein­dregið gegn því að þetta frum­varp verði samþykkt,“ seg­ir í um­sögn fé­lags­ins sem vek­ur at­hygli á því að af „óskýrðum ástæðum“ hafi frum­varpið ekki verið sent fé­lag­inu til um­sagn­ar eins og tíðkast hef­ur. Þá seg­ir að á hverju ári láti ungt fólk lífið vegna fíkn­ar. „LÍ legg­ur áherslu á að efla og auka meðferðarúr­ræði fyr­ir þá sem berj­ast við fíkn og verja auknu fjár­magni til slíkra verk­efna.“

Þá er það mat embætt­is land­lækn­is „að var­huga­vert sé að stíga þetta skref án þess að móta heild­ar­stefnu í þess­um mála­flokki og sem tek­ur til­lit til allra þátta; því styður embættið ekki frum­varpið í nú­ver­andi mynd“. Þá tel­ur embættið laga­breyt­ing­una kunna að hafa víðtæk áhrif meðal ann­ars á stöðu barna og ung­menna og er vegna þessa „nauðsyn­legt að gert sé mat á hagræn­um og fjár­hags­leg­um áhrif­um frum­varps­ins til að áætla heild­aráhrif þess á ríki og sveit­ar­fé­lög að teknu til­liti til kostnaðar og ávinn­ings til lengri tíma“.

Í umsögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er sagður skortur á heildrænni …
Í um­sögn lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu er sagður skort­ur á heild­rænni stefnu í mála­flokkn­um. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Lög­reglu­stjór­inn tek­ur í sama streng í um­sögn sinni og seg­ir að nær hefði verið að „móta heild­stæða stefnu­mót­un áður en frum­varpið var lagt fram, þar sem hugað hefði verið að því hverj­ir séu neyt­end­ur og hvernig af­glæpa­væðing neyslu­skammta fari sam­an við vinnu um fíkni­efna­for­varn­ir til að verja böm og ung­menni.“

Bent er á að fíkni­efna­neysla ung­menna hafi verið mjög lít­il hér á landi og að „ís­lenska for­varn­ar­mód­elið hef­ur verið „flutt út“ til annarra landa sök­um þess hve góður ár­ang­ur hef­ur náðst varðandi vímu­efna­neyslu ung­menna. Hætt er við að þeim ár­angri verði stefnt í voða með því að gera vörsl­ur á neyslu­skömmt­um refsi­laus­ar, þ.e. „normalisera“ neyslu fíkni­efna.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert