Sprenging í innflutningi rafhjóla

Bæði rafmagnshjól og hefðbundin hjól eru nú algeng sýn
Bæði rafmagnshjól og hefðbundin hjól eru nú algeng sýn mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar tölfræði yfir innflutning á hjólum, rafmagnshjólum og rafskútum fyrir síðustu ár er skoðuð má sjá ansi margt áhugavert.

Í fyrsta lagi hefur orðið algjör sprenging í kaupum á bæði hjólum og hlaupahjólum sem eru rafknúin, en fjöldi rafmagnssamgöngutækja meira en fjórfaldaðist. Í öðru lagi er heildarsala hjóla (bæði hefðbundin og rafmagns) nokkuð stöðug og neytendur því ekki að hætta að kaupa hjól, heldur að einhverju leyti að flytja sig yfir í rafmagnshjól. Í þriðja lagi er sala á hefðbundnum hjólum ekki að lækka í krónutölu (á föstu verðlagi) og þar af leiðandi er verið að selja dýrari hjól en áður. Og í fjórða lagi var heildarupphæð rafmagnshjóla sem flutt voru inn svipuð og heildarupphæð hefðbundinna hjóla, en fjöldinn var aðeins um fimmtungur.

Hámark hefðbundinna hjóla 2017

Áður en við byrjum þessa yfirferð er rétt að hafa í huga að innflutningstölurnar eru samkvæmt samantekt Hagstofunnar og byggjast á tollnúmeraskrá Tollsins. Á árunum 2012-2016 voru rafmagnsfarartæki í þremur mismunandi flokkum, en flest stykkin féllu undir flokk rafmagnshlaupahjóla. Árið 2017-2019 tók við nýr flokkur sem hét „Lítil rafknúin ökutæki og hlaupahjól“ sem ætluð voru fyrir akstur undir 25 km/klst. Þar var kominn samflokkur fyrir bæði rafmagnshjól, rafmagnshlaupahjól og önnur sambærileg tæki og gætu svifbretti hæglega hafa átt heima þar. Árið 2020 var svo aftur gerð breyting og voru þá settir upp fjórir flokkar til að tilgreina þessar vörur enn frekar; rafhjól, rafhlaupahjól, rafvespur og önnur rafmagnsökutæki.

Innflutningur á hefðbundnum reiðhjólum var nokkuð stöðugur á árunum 2012-2014, eða í kringum 15-16 þúsund hjól á ári. Á þessum árum var fjöldi innfluttra rafmagnsfarartækja lítill, eða um og undir þúsund stykki á ári. Innflutningur hefðbundinna hjóla fór svo að rísa þar árin á eftir og náði hámarki árið 2017 þegar tæplega 25 þúsund slík hjól voru flutt inn. Á sama tíma var heildarfjöldi rafmagnsfarartækjanna að aukast nokkuð þétt og var um 2.300 árið 2017.

Graf/mbl.is

Breytingin mest árið 2020

Árið 2018 varð hins vegar nokkur breyting. Í fyrsta lagi fækkaði nýjum hefðbundnum hjólum sem flutt voru inn, en fjöldi rafmagnstækjanna hélt áfram að rísa. Voru hefðbundin hjól um 19.500 en rafmagnstæki komin upp í 3.700. Hér voru rafmagnshjól byrjuð að ryðja sér ágætlega til rúms sem og rafmagnshlaupahjól. Árið 2019 hélt þessi þróun áfram. Innflutningur á hefðbundnum hjólum fór niður í 17.700, en rafmagnstækin fóru upp í 5.400.

Stærsta breytingin átti þó eftir að koma, en það var árið 2020. Hefðbundin reiðhjól í fyrra voru 16.700 og hafði þá fækkað stöðugt frá 2017. Þetta er aftur á móti fyrsta árið þar sem innflutningurinn er flokkaður nákvæmlega eftir því um hvers konar rafmagnssamgöngutæki er að ræða. Þar sjáum við meðal annars að samtals voru flutt inn tæplega 19.600 rafmagnshlaupahjól og 3.740 rafhjól. Hefðbundin reiðhjól fóru hins vegar niður í 16.700. Þetta ár voru sem sagt fleiri rafmagnshlaupahjól flutt inn til landsins en reiðhjól.

Þegar þetta er skrifað eru aðeins komnar innflutningstölur fyrir fyrstu tvo mánuði þessa árs. Þegar borinn er saman innflutningur á þessum fyrstu tveimur mánuðum við fyrstu tvo mánuði 2019 og 2020 má sjá að fjöldi rafreiðhjóla hefur tvöfaldast á meðan enn hefur verið samdráttur í hefðbundnum reiðhjólum. Reyndar er innflutningur hefðbundinna reiðhjóla á þessum tveimur mánuðum ekki nema þriðjungur þess sem hann var fyrstu tvo mánuði ársins 2019. Hins vegar hafa næstum engin rafmagnshlaupahjól verið flutt inn það sem af er þessu ári. Vert er þó að hafa í huga að tölur fyrir tvo fyrstu mánuðina geta verið mjög brenglandi, enda kemur mesti fjöldi bæði hjóla og rafmagnssamgöngutækja inn á vorin og fram á sumar. Engin sending virðist hafa komið af rafmagnshlaupahjólum, en það gæti skýrst af því að engin stór sending sé enn komin til landsins, en að í fyrra hafi ein sending komið snemma.

Hefðbundnu hjólin færri en dýrari

Þegar við förum að skoða innflutningstölurnar eftir innflutningsverði (á verðlagi þessa árs) verður niðurstaðan nokkuð áhugaverð. Þar sjáum við fimmfalt verðmætari innflutning í rafmagnssamgöngutækjum á milli áranna 2019 og 2020, þar sem rafmagnshjólin ein og sér nema 1.033 milljónum. Rafhlaupahjólin nema 856 milljónum og innflutningsverðmæti hefðbundinna hjóla hækkar um rúmlega 200 milljónir. Vert er að hafa í huga tölur hér að framan, en fjöldi rafmagnsfarartækja meira en fjórfaldaðist og sala á hefðbundnum hjólum dróst saman um þúsund stykki.

Graf/mbl.is

Ef horft er aftur til ársins 2012 má jafnframt sjá að innflutningsverðmæti hefðbundinna hjóla hefur rúmlega tvöfaldast frá því árið 2012, en fjöldinn hefur aðeins aukist um 13% á sama tíma. Það gefur sem fyrr segir til kynna að hvert og eitt hjól sé dýrara en áður var og miðað við þá þróun sem sést hefur á götum borgarinnar undanfarin ár má áætla að landsmenn séu að gera nokkuð vel við sig í að kaupa flottari og vandaðri hjól en áður.

Fimmfalt verðmæti en 3,6-falt fleiri tæki

Heildarinnflutningsvirði allra samgöngutækjanna, hvort sem það eru hefðbundin reiðhjól eða rafknúin samgöngutæki, hefur á þessu sama tímabili, frá 2012 til 2020, tæplega fimmfaldast, en heildarfjöldinn farið úr 15.700 í 40.600, eða aukist um tæplega 260%.

Grein­in birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins 30. apríl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka