Telja að Ísland taki bresk vottorð gild

Bresk yfirvöld munu væntanlega kynna græna listann síðar í vikunni.
Bresk yfirvöld munu væntanlega kynna græna listann síðar í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Cli­ve Stacey, fram­kvæmda­stjóri bresku ferðaskrif­stof­unn­ar Disco­ver the World, segir í samtali við Independent að hann hafi náð að sannfæra Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um að taka gild bresk bólusetningarvottorð sem sönnun fyrir bólusetningu.

Stacey, sem stofnaði Discover the World árið 1983, er nýkominn til Bretlands frá Íslandi og segist hafa átt góðan fund með Katrínu þegar hann dvaldi hér á landi. Hún hafi komið honum í samband við fólk sem kemur að ákvörðunartökunni varðandi ferðalög til Íslands. Það fólk hafi farið yfir stöðuna með honum og bent á það sem þyrfti að laga en ekkert benti til annars en bresk bólusetningarvottorð gangi hér.

Samkvæmt frétt Independent bendir allt til þess að Ísland verði eitt fárra ríkja Evrópu sem er á grænum lista og því þurfi ekki að fara í sóttkví við komuna til Bretlands.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Stacey talar um að Bandaríkjamenn séu byrjaðir að fljúga til Íslands og að ferðaþjónustan á Íslandi sé reiðubúin til að taka á móti ferðamönnum. Hann segir að Discover the World muni frá og með 17. maí flytja bólusetta ferðamenn til Íslands, það er verði landið á græna listanum.

Hann hrósar íslenskum yfirvöldum hvað varðar viðbrögð við Covid-19 og að rakningarkerfið hér á landi sé meðal þess sem það gerist best í heiminum.

Eitt af því sem fjallað er um í Independent er eldgosið í Geldingadölum og að það verði væntanlega kraumandi áfram.

Samgönguráðherra Bretlands, Grant Shapps, mun væntanlega kynna hvaða ríki verða á græna listanum, það er þurfa ekki að fara í sóttkví, síðar í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert