Í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag lagði Hjálmar Bogi Hafliðason, þingmaður Framsóknarflokksins, til að Alþingi myndi ræða það að setja lög um aldurstakmörk við eign snjallsíma.
Lög um ýmis aldurstakmörk séu til varðandi margt; kosningarétt, áfengiskaup, þátttöku í stjórnmálaflokkum o.s.frv. Hjálmar spurði því hvers vegna væri ekki komið á fót lögum sem takmarka snjallsímaeign ungra barna.
Hann spurði hvort gott væri að 14 ára unglingur hefði aðgang að öllu því hlaðborði efnis sem snjallsímar og samskiptaforrit hefðu upp á að bjóða.
Til staðar væru aldurstakmörk á kaup á orkudrykkjum vegna þess að vitað sé að þeir geti verið slæmir fyrir börn á þroskaskeiði, hvers vegna væri slíkt ekki gert með snjallsíma og samskiptaforrit þegar vitað er að slík fyrirbæri breyta hegðun ungs fólks.
Eins og venjan er með umræður um störf þingsins fara þingmenn með ræður um fyrirframákveðin málefni og því hefur enn enginn tekið undir með eða mótmælt orðum Hjálmars.
Næst á eftir Hjálmari tók Helga Vala Helgadóttir úr Samfylkingunni til máls og skoraði á ríkisstjórnina að bregðast við manneklu og fjárskorti lögregluembætta landsins vegna uppgangs skipulagðar glæpastarfsemi.
Því næst fjallaði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, um gengi bólusetninga og spurði hvers vegna Íslendingar væru að nota bóluefni sem aðrar Norðurlandaþjóðir kjósa að nota ekki. Svo harðorður var hann í garð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að Steingrímur J. Sigfússon, flokksbróðir Svandísar og forseti þingsins, sagði, að ræðu Þorsteins lokinni, að þetta hefðu verið „þung orð“ um einhvern sem ekki er viðstaddur og getur ekki varið sig.