Þeir sem fengu fyrri skammtinn af bóluefni lyfjaframleiðandans AstraZeneca, og falla utan þeirra hópa sem bóluefnið var takmarkað við eftir að aukaverkanir komu í ljós, munu geta valið á milli þess að fá seinni skammtinn frá AstraZeneca eða skammt af mRNA-bóluefni, þ.e. frá Pfizer eða Moderna.
Þetta sagði Kamilla Sigríður Jósefsdóttir smitsjúkdómalæknir á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í morgun.
„Eftir að þeir einstaklingar voru bólusettir þá kom í ljós þessi aukaverkun, þar sem koma fram óvenjulegir blóðtappar sem virðast vera algengari hjá yngri konum,“ sagði Kamilla.
„Þeir sem voru búnir að fá fyrri sprautuna, og fengu engar aukaverkanir, þeir munu mögulega fá boð bæði í AstraZeneca- og mRNA-bóluefni. Þá geta þeir valið um það að fylgja eftir bóluefninu sem þeir fengu fyrst eða fara yfir í það bóluefni sem er nú mælt með fyrir þeirra aldurshóp, eða einstaklinga með undirliggjandi áhættuþætti.“
Kamilla sagði að margar spurningar hefðu borist í tengslum við þessa breytingu. Hvort að jafngott væri að fá bólusetningu með tveimur mismunandi bóluefnum og að fá tvo skammta af sama bóluefni.
„Svarið við því er að við vitum það ekki enn þá. Það er verið að rannsaka þetta en það er ekki búið að birta neinar niðurstöður úr þeim rannsóknum. Þeirra er að vænta í júní.“
Samt sem áður væri komið að seinni bólusetningu fyrir þá sem um ræðir. Því sé ekki val á öðru en að bjóða hana.
Kamilla benti á að endanleg virkni bóluefnanna í líkamanum og ætti að vera sú sama, þau færu einfaldlega misjafnlega að því að koma örvun ónæmiskerfisins af stað.
Einnig tók hún fram að þungaðar konur myndu fá boð um bólusetningu með mRNA-bóluefni, sökum þess að töluverð reynsla hafi fengist af notkun slíkra efna fyrir þungaðar konur í Bandaríkjunum.
Janssen-bóluefnið verði þá notað fyrir alla frá 18 ára aldri. Þrátt fyrir að álíkra blóðtappa hafi orðið vart eins og við notkun AstraZeneca, þá virðist sem tilfellin séu mun sjaldgæfari en hjá AstraZeneca. Og þar væru tilfellin þegar sjaldgæf.
Ítrekaði hún að mikilvægt væri að fólk kæmi á þeim tíma sem það fær boð í bólusetningu. Ekki sé einfaldlega rými til að taka á móti auknum fjölda fólks eftir hefðbundinn vinnutíma.