Rannsókn, sem nokkur landssamtök SOS-barnaþorpa gengust fyrir, leiðir í ljós að alþjóðasamtökin hafi ekki rannsakað barnaverndarbrot sem skyldi og jafnvel stöðvað óþægilegar rannsóknir af því tagi.
Þetta kemur fram í viðtali við Ragnar Schram, framkvæmdastjóra SOS-barnaþorpa á Íslandi, í Morgunblaðinu í dag. Brotin, sem um ræðir, eru af ýmsum toga og mjög misalvarleg, en verra sé að yfirmenn alþjóðasamtakanna hafi gerst sekir um yfirhylmingu.
Ragnar játar að þessar opinberanir geti reynst starfi samtakanna þungar í skauti, en þau geti ekki tekið þátt í slíkri yfirhylmingu, hagsmunir barnanna gangi fyrir.
Af orðum Ragnars er ljóst að hann og hin íslensku samtök bera ekki traust til forseta og varaforseta alþjóðasamtaka SOS-barnaþorpa. Sissel Aarak, hjá SOS-barnaþorpum í Noregi, hefur sömu sögu að segja.
SOS-barnaþorp voru stofnuð eftir síðari heimsstyrjöld til þess að sinna þörfum munaðarlausra og stríðshrjáðra barna. Þau starfa nú í 137 löndum, en um 31 þúsund manns létu fé af hendi rakna til íslensku samtakanna í fyrra. Ragnar biðlar til þeirra um að treysta því að íslensku samtökin gæti gegnsæis. Þau muni ekki una sér hvíldar fyrr en „við erum fullviss um að þessi mál séu komin í lag, að hinir brotlegu axli ábyrgð“.