Ekki í burðarliðnum að hefja bólusetningu meðal barna

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er ekki í burðarliðnum að hefja bólusetningu meðal barna hér á landi að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Lyfjastofnun Bandaríkjanna heimilaði í gær notkun bóluefnis Pfizer fyrir börn frá 12 ára aldri. 

Hér á landi er miðað við 16 ára aldur líkt og annarsstaðar. Bóluefni Pfizer og BioNTech er fyrsta bóluefnið gegn Covid-19 til að fá markaðsleyfi fyrir börn undir 16 ára aldri. 

Þórólfur segir í samtali við mbl.is að bólusetning barna undir 16 ára aldri hafi ekki verið sérstaklega til skoðunar hérlendis. 

„Við eigum eftir að sjá hvort að Lyfjastofnun Evrópu samþykki þessa notkun á bóluefninu og sjá  hvernig niðurstaðan úr þeim rannsóknum er áður en við förum að taka einhverja ákvörðun um það. Það er ekki komið á neitt alvarlegt umræðustig,“ segir Þórólfur. 

Ákvörðunin um að heim­ila notk­un bólu­efn­is­ins bygg­ist á klín­ísk­um til­raun­um sem Pfizer og Bi­oNTech hafa ráðist í, þar sem 2.260 þátt­tak­end­ur á aldr­in­um 12-15 ára fengu ým­ist tvo skammta af bólu­efn­inu eða lyf­leysu. Þórólfur segir fróðlegt að sjá niðurstöður rannsóknarinnar. 

„Það verður mjög fróðlegt að sjá þessi gögn, hvernig þessi rannsókn kom út, en við erum ekki með það í burðarliðnum að fara byrja bólusetningu barna eins og staðan er núna.“

Vottorðin tekin gild hérlendis 

Greint var frá því fyrir helgi að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi skrifað undir samkomulag við Pfizer um kaup á 900 milljónum skammta af bóluefninu til viðbótar og munu kaupin að öllu óbreyttu hafa áhrif hér á landi þar sem Ísland er aðili að bóluefnasamstarfi ESB. Ísland hefur samið um kaup á bólefni Pfizer fyrir 245 þúsund ein­stak­linga, bólu­efni Moderna fyr­ir 147.250 ein­stak­linga, bólu­efni Astra Zeneca fyr­ir 115 þúsund ein­stak­linga og bólu­efni Jans­sen fyr­ir 235 þúsund ein­stak­linga. Einnig hef­ur verið samið um kaup á bólu­efni CureVac fyr­ir 90 þúsund ein­stak­linga en próf­un­um á því bólu­efni er ekki lokið. 

Þá var greint frá því fyrir fyrir helgi að heilbrigðisráðuneytið ásamt fulltrúa utanríkisráðherra hafi fundað með upphaflegum framleiðanda og þróunaraðila Spútnik V bóluefnis um möguleg kaup á efninu. 

Þórólfur segist ekki vita hvar þær viðræður séu staddar. 

Ég veit ekki hvernig það stendur. Mér vitanlega er það ekki komið á neitt alvarlegt stig, þetta bóluefni er ekki búið að fá markaðsleyfi í Evrópu eftir því sem ég veit best,“ segir Þórólfur. 

Um bóluefnið sjálft segir hann: 

„Ég verð bara að sjá hvaða gögn eru á bakvið þetta bóluefni og hvernig það virkar og heyra mat Lyfjastofnunar Evrópu um það.“

Einstaka ríkja að ákveða hvaða vottorð verði tekin gild

Alls hafa rúmlega 140 þúsund einstaklingar hér á landi fengið að minnsta kosti einn skammt bóluefnis. 

Þeir sem hafa fengið fyrri skammtinn af bóluefni AstraZeneca, og falla utan þeirra hópa sem bóluefnið var takmarkað við eftir að aukaverkanir komu í ljós, munu geta valið á milli þess að fá seinni skammtinn af AstraZeneca eða af mRNA-bóluefni Pfizer eða Moderna. Konur yngri en 55 ára fá ekki bóluefni AstraZeneca. 

Þórólfur segir að þeir sem fái annað bóluefni þegar seinni skammtur er gefinn fái eftir sem áður samskonar bólusetningarvottorð og aðrir. Hvort að þau vottorð gildi annarsstaðar í heiminum fari að öllum líkindum eftir ákvörðunum einstaka ríkja. 

„Þeir fá bólusetningarvottorð frá okkur. Það er hvert land sem verður að ákveða hvað það tekur gilt og hvað ekki, en það er allavega gilt hjá okkur. Það eru fleiri lönd sem eru að gera þetta, Þjóðverjar, Frakkar og fleiri þannig að ég býst við því að þessu vottorð verði tekin gild annarsstaðar þó ég geti ekki svarað fyrir aðrar þjóðir,“ segir Þórólfur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert