Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur og formaður Trans Ísland, segir héraðsdóm þar sem fyrirtæki var gert að greiða laun vegna veikinda í kjölfar brjóstnámsaðgerðar transmanns vera staðfestingu á réttarstöðu transfólks hér á landi. Hún segir þó þær forsendur sem dómurinn byggir á vera úreltar.
Fyrirtækið var í gær dæmt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða fyrrum starfsmanni sínum vangoldin laun fyrir tímabil þar sem starfsmaðurinn var óvinnufær vegna vandamála sem upp komu í kjölfar brjóstnámsaðgerðar, en fram kom í vottorði geðlæknis fyrir dóminum að maðurinn hafi fæðst í kvenmannslíkama en upplifað sig í röngum líkama frá kynþroska.
Í dóminum var starfsmaðurinn meðal annars talinn hafa sýnt fram á með vottorðum lækna og framburði þeirra fyrir dómi að hann hafi verið haldinn sjúkdómi í skilningi læknisfræðinnar í aðdraganda brjóstnámsaðgerðarinnar.
„Við erum mjög ánægð með dóminn og hann sýnir skýrt hver réttarstaða transfólks er á Íslandi og þetta var auðvitað bara mismunun á vinnumarkaði sem var dæmt um. En þessar forsendur um að viðkomandi hafi verið haldinn einhverskonar sjúkdóm og að það sé forsendan fyrir því að það hafi verið brotið á honum finnst mér vera svolítið gamaldagssýn á upplifun og líf transfólks,“ segir Ugla í samtali við mbl.is.
„Með lögum um kynrænt sjálfræði er ekki lengur talað um að transfólk sé haldið einhverjum sjúkdóm og heilbrigðisþjónusta byggir ekki lengur á þeirri forsendu. Þess vegna finnst mér bæði hvernig er talað um þetta í dómnum og eins hvernig heilbrigðisstarfsfólkið sem kom að málinu talar um þetta vera mjög úr takti við nútímann og lagalegt umhverfi. Transfólki á fyrst og fremst ekki að vera mismunað á vinnumarkaði út af lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði. Mér finnst forsendurnar sem þetta mál er byggt upp á vera mjög gamaldags og það lyktar mjög af gamaldags hugsunarhætti um transfólk og hvað það er að vera transfólk,“ segir Ugla.
Ugla segir að álíka mál hafi komið upp áður, sem sagt að vinnuveitandi hafi neitað að greiða fyrir veikindi í tengslum við transferli starfsmanns. Hún segir þó að slík mál hafi aldrei komið inn á borð dómstóla áður.
„Það hefur komið upp áður en það er ekki rosa algengt að þetta gerist og sérstaklega ekki að þetta gangi svona langt, þetta er fyrsta málið sem hefur komið fyrir dóm. Fyrir mörgum árum síðan var þetta algengara en nú til dags erum við ekki að fá svona mál inn á borð til okkar en við vitum kannski ekki af öllum málum. Þetta mál kannski sýnir að það eru ennþá vinnustaðir sem eru enn fastir í þeim fordómum að ferli transfólks snúist bara um einhverjar fegrunaraðgerðir og að þetta sé eitthvað sem fólk bara kýs að gera í einhverju kæruleysi eða út af öðrum ástæðum,“ segir Ugla.
„Ferli transfólks eru órjúfanlegur hluti af þeirra lífi og þessar aðgerðir sem fólk kýs að undirgangast eru lífsnauðsynlegar fyrir þá einstaklinga. Fólk í rauninni þarf að fara í svona aðgerðir eða fá inngrip til að geta lifað sátt í eigin skinni, þetta snýst um að geta lifað mannsæmandi lífi. Vinnustaðir þurfa náttúrulega að taka tillit til þess og vita af því, þessi dómur sýnir svart á hvítu að transfólk á rétt á sér og það er í raun ótrúlegt að þessi vinnustaður hafi leyft þessu að ganga svona langt,“ segir Ugla.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna 78, tekur í sama streng og Ugla. Niðurstaða dómsins sé ánægjuleg en forsendurnar séu úreltar.
„Við í samtökunum fögnum þessum dómi. Við erum ánægð með að það skuli viðurkennt af héraðsdómi að þessar aðgerðir sem transfólk notar til þess að upplifa sátt í eigin líkama séu nauðsynlegar,“ segir Þorbjörg.
„Við lítum svo á að þetta sé lífsnauðsynleg heilbrigðisþjónusta þó svo að það að vera trans sé ekki sjúkdómur. Það er búið að taka það að vera trans út úr sjúkdómaskráningu á heimsvísu, svo ég er ekkert rosalega ánægð endilega með það hvernig þetta er sett upp í þessum dómi, en það var verið að miða við lögin sem voru í gildi þá. Orðalagið er sannarlega úrelt en dómurinn sjálfur er réttur og mjög gleðilegt að þessi transmaður hafi fengið úr þessu skorið,“ segir Þorbjörg og bætir við: „Þetta er svipað að það að vera hommi eða lesbía var einu sinni á sjúkdómaskrá.“