Slökkviskjóla verður leigð frá Svíþjóð eftir að í skjólan sem Landhelgisgæslan hafði til umráða eyðilagðist eftir síðustu notkun við slökkvistarf á sinubruna í Heiðmörk 4. maí síðastliðinn.
Í samtali við mbl.is segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar að allt verði gert til þess að fá skjóluna til landsins sem fyrst.
„Það er búið að finna slökkviskjólu í Svíþjóð sem verður leigð og eins og staðan er núna er verið að leita leiða til þess að koma henni sem allra fyrst til landsins. Eins og staðan er í flugi og öðru getur það verið pínu snúið en það er verið að vinna að því hörðum höndum að koma henni til landsins,“ segir Ásgeir.
Hættustig almannavarna er nú í gildi vegna hættu á gróðureldum vegna þurrka undanfarið. Slökkviskjólur þjóna miklum tilgangi í slökkvistarfi við stærri gróðurelda eða sinubruna, eða bruna þar sem dælubílar komast ekki að vettvangi. Vatn er sótt í skjóluna sem hangir í þyrlu Gæslunnar. Síðan er flogið yfir staðinn þar sem slökkva þarf eld og skjólunni sleppt. Þyrla Gæslunnar flaug 17 ferðir yfir brunann í Heiðmörk með skjóluna þar til hún ónýttist.
Ásgeir segir að lánsskjólan sé sambærileg þeirri skjólu sem Gæslan hafi haft til umráða síðustu ár og tekur hún u.þ.b. 1.600 lítra af vatni í hverri ferð.
Spurður hvort hann bindi vonir við að skjólan komi til landsins í vikunni segir Ásgeir:
„Það er eiginlega ómögulegt að segja en það þarf að gerast sem allra fyrst. Við leitum allra leiða ásamt almannavörnum að hún komi til landsins við allra fyrsta tækifæri.“
Þá liggur ekki fyrir hve lengi hægt verður að leigja skjóluna.
„Þetta hefur allt gerst svo hratt, við byrjum á að leigja hana og síðan verður framhaldið skoðað í kjölfarið.“
Ásgeir tekur undir áhyggjur Rögnvalds Ólafssonar aðalvarðstjóra almannavarnadeildar, sem sagði í samtali við mbl.is í gær að áhyggjuefni væri að hafa ekki skjólu til umráða nú þegar hætta á gróðureldum væri mikil.
„Það er grafalvarleg staða að hafa ekki skjólu til taks núna,“ segir Ásgeir.