Segir ákvörðun Kolbeins skynsamlega

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður Vinstri grænna. mbl.is/Arnþór

„Hans mál eru í ferli hjá fagráðinu, ég þekki ekki til þeirra,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, í samtali við mbl.is varðandi kvartanir yfir hegðun Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns sama flokks, gagnvart konum til fagráðs flokksins. 

Fagráðið sjálfstætt

Kolbeinn dró í gær framboðs sitt í prófkjöri flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum til baka. Með því segist hann vera að axla ábyrgð á hegðun sinni gagnvart konum. 

Bjarkey segir fagráðið starfa alveg úr sjónlínu kjörinna fulltrúa, starfa sjálfstætt og koma þingflokki ekki neitt við. 

„Það er alltaf dapurlegt þegar svona mál koma upp, en ég er ánægð með ákvörðun hans og ég tel hana skynsamlega,“ segir Bjarkey. 

Bjarkey er ekki tilbúin að leggja mat á afsökunarbeiðni Kolbeins, sem hefur verið gagnrýn og hefur Hildur Lillendahl, femínískur aktívisti, meðal annars kallað hana gaslýsingu. Einnig má finna ummæli við færslu Kolbeins frá því í gær sem gefa til kynna að hann hafi eytt athugasemdum sem gagnrýndu færsluna. 

Vissu ekkert 

„Það verður bara hver og einn að eiga við sig hvernig hann meðhöndlar svona mál,“ segir Bjarkey.

Hún segir hvorki þingflokkinn hafa vitað af málinu né að Kolbeinn hafi tilkynnt þingflokki að hann myndi draga sig út úr pólitík með þessum hætti. 

Bjarkey segir stöðu Kolbeins fram að þinglokum ekki hafa verið rædda. „Við öndum bara aðeins í kviðinn,“ segir hún. Hún segir það hvers þingmanns að ákveða sína stöðu í málum sem þessum og að þingflokkurinn hefur ekkert boðvald yfir honum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert