Skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice hafa óskað eftir því að sá möguleiki verði kannaður að tónlistarhátíðin Secret Solstice verði haldin á Vífilsstaðatúni og í nærumhverfi þess. Fresta hefur þurft hátíðinni bæði í ár og í fyrra vegna Covid-19.
„Hátíðin hefur frá upphafi farið fram í Laugardal og Laugardalur er frábær staður fyrir tónlistarhátíð. Vandamálið hefur hins vegar alltaf verið hversu langar allar boðleiðir eru innan Reykjavíkur ásamt því sem nokkur íþróttafélög eru með aðstöðu þar. Það hefur gert alla vinnu í kringum skipulagningu og framkvæmd mjög flókna og erfiða. Þá hefur það lengi legið fyrir að fara ætti í framkvæmdir á svæðinu,“ segir Jón Bjarni Steinsson, skipuleggjandi hátíðarinnar, í beiðni sinni til Garðabæjar og bætir við að Vífilsstaðatún sé á mjög fallegum stað og því frábær staður fyrir hátíð sem geri mikið út á fallegt umhverfi.
Jón Bjarni segir að í Garðabæ sé greiður aðgangur að félögum eins og Stjörnunni og að einfaldara sé að vinna með einum aðila í stað þess að vinna með Þrótti, Ármanni og Skautafélagi Reykjavíkur eins og verið hefur í Laugardal.
Bæjarráð hefur vísað erindinu til umfjöllunar í menningar- og safnanefnd Garðabæjar og íþrótta- og tómstundaráði bæjarins.