Stytta myndhöggvarans Ríkarðs Jónssonar af Matthíasi Jochumssyni sem staðsett er í Kristalsal Þjóðleikhússins er í góðu standi og óskemmd að sögn Magnúsar Geirs Þórðarsonar þjóðleikhússtjóra. Brotinni útgáfu af styttunni hefur aftur á móti verið komið fyrir í stað raunverulegu styttunnar, en brotna styttan er hluti leikmyndar Nashyrninganna, sem nú eru til sýninga í leikhúsinu.
Brotna styttan hefur vakið talsverða athygli, en Magnús segir það einmitt tilgang þess gjörnings sem styttan er hluti af að valda usla.
„Í leiksýningunni er boðið upp á óvenjulega upplifun í hléi sem er sennilega uppspretta þessara sögusagna. Án þess að ég afhjúpi of mikið og skemmi þar með fyrir væntanlegum leikhúsgestum, þá get ég staðfest að hvorki Nashyrningar né önnur hófdýr hafa raunverulega farið með látum um nýuppgerðan forsal leikhússins og Kristalsal, skemmt þar innanstokksmuni og menningarverðmæti,“ segir Magnús um gjörninginn og bætir við:
„Svo er ekki. Hin raunverulega stytta af Matthíasi Jochumssyni og aðrar styttur í Kristalsal eru sannarlega í góðu standi og óskemmdar.“
Nashyrningarnir hafa áður valdið áhyggjum, en samfélagsmiðillinn Facebook lokaði reikningi leikhússins um tíma á þeim forsendum að grunsemdir væru um að leikhúsið stæði fyrir sölu á dýrum í útrýmingarhættu. Magnús segir að kynningardeild leikhússins hafi þá þurft að miðla því til samfélagsmiðilsins að Þjóðleikhúsið væri einungis að bjóða til sölu leikhúsmiða en ekki dýr.