Breyta þarf hegningarlögum á þá leið að framleiðsla kláms verði afglæpavædd að fullu, að mati Klöru Sifjar Magnúsdóttur, 23 ára Akureyrings sem býr til erótískt efni og selur á vefsíðunni OnlyFans.
„Þetta er allt svo ótrúlega úrelt,“ segir Klara Sif við mbl.is, og vísar þar til löggjafar í kringum klám.
Greint var frá því á dögunum að kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sé nú að skoða hvort efni sem Íslendingar setja á OnlyFans flokkist sem framleiðsla og sala á klámi. Slík framleiðsla gæti verið brot á almennum hegningarlögum og varðað refsingu.
Klara segir tímasetninguna á þessari skoðun lögreglu vera afar furðulega, í ljósi þess hve yfirgripsmikil umræðan um nauðganir og önnur kynferðisbrot hefur verið í kjölfar annarrar MeToo-bylgju.
„Það að lögreglan fer að kíkja á þetta núna og sekta okkur sem vinnum í kynlífsiðnaði fyrir það að eitt að vinna vinnuna okkar finnst mér ekki vera í lagi,“ segir hún. „Þetta er eitthvað sem ætti ekki að vera í forgangi hjá lögreglu.“
Ef marka má orð Ævars Pálma Pálmasonar yfirmanns kynferðisbrotadeildarinnar er klámframleiðsla þó ekki forgangsverkefni lögreglunnar sem stendur.
Í samtali við Fréttablaðið í vikunni sagði Ævar: „Okkar forgangsröðun í kynferðisbrotadeildinni er á nauðganir, brot gegn börnum og önnur kynferðisbrot þar sem verið er að brjóta á einhverjum. Það er ekki þar með sagt að ef það er verið að fremja eitthvað sem við teljum smávægileg brot fyrir framan nefið á okkur þá förum við ekki í þau“.
Þau orð breyta samt ekki skoðun Klöru á aðgerðum lögreglu.
„Við viljum bara fá að vinna okkar vinnu í friði og öruggu umhverfi.“