Brugðust hratt við auknu hraunflæði

Fljótlega eftir að eldgosið hófst kom þó í ljós að …
Fljótlega eftir að eldgosið hófst kom þó í ljós að ef þessi atburður dregst á langinn gæti það haft áhrif á mikilvæga innviði á svæðinu. Hröð þróun á svæðinu í gær varð til þess að hafist var handa við að reisa varnargarða. Ljósmynd/Almannavarnir

Hafist var handa við að reisa varnargarða ofan við Nátthaga vegna gossins í Geldingadölum strax í morgun. Lokið hefur verið við að fylla í vestra skarðið á svæðinu.

Ekki var ráðgert í upphafi að fylla í eystra skarðið í dag en þegar aðstæður voru kannaðar var ákveðið að hefjast þar einnig handa.

Í gær varð breyting á hraunflæði, að því er segir í tilkynningu frá Almannavörnum, og jókst flæðið verulega til suðurs og inn í syðsta hluta Meradala, í dal sem kallaður hefur verið Nafnlausidalur.

Ekki að fullu vitað hvort og hvernig áhrif hraunrennslið hefur á jörðina og þar með á ljósleiðara sem liggur niðurgrafinn í Nátthaga. Fljótlega eftir að eldgosið hófst kom í ljós að ef þessi atburður dregst á langinn gæti það haft áhrif á mikilvæga innviði sem þessa á svæðinu.

Svæðið vaktað allan sólarhringinn

Hafist var handa í dag við að fylla í tvö skörð á svæðinu. Notast er við hraun á svæðinu til þess að fylla í skörðin, að sögn Fannars Jónassonar bæjarstjóra Grindavíkur.

„Það hefur gengið vel að hlaða upp í vestra skarðinu en síðan er líka fylgst hvort að hraunið hækkar við þessa fyrirstöðu þannig að við þurfum kannski að hækka varnargarðinn,“ segir hann en að óbreyttu verður varnargarðurinn fjórir metrar á hæð. 

Aukist hraunflæðið verður staðan endurmetin og gæti hann þá orðið átta metrar á hæð.

Nafnlausidalur áfram nafnlaus

Stendur til að finna nafn á dalinn sem til stendur að verja, Nafnlausadal? 

„Heimamenn og landeigendur segja almennt að þetta sé syðsti dalurinn í Meradölum. Honum hefur bara verið lýst þannig og hann hafi ekkert nafn, enda eru Meradalir fleirtöluorð og þetta er syðsti dalurinn þar,“ segir hann. 

Notast var við tvö stórvirk tæki við gerð varnargarðanna og er með því reynt að tryggja að hraunrennslið verði áfram fyrst og fremst inn í Meradali.

Svæðið er vaktað með myndavélum allan sólarhringinn ef ske kynni að hraunið flæði yfir varnargarðana. „Við erum stöðugt að fylgjast með þessu. Það er bara spurning um hvaðan hrauntungurnar eru að koma hverju sinni. Það verður bara vaktað og staðan verður endurmetin ef það fer áfram að hækka í þessu,“ segir hann að lokum. 

Markmiðið er að hraunflæðið verði áfram efst í Meradölum, svo …
Markmiðið er að hraunflæðið verði áfram efst í Meradölum, svo það nái ekki niður í Nátthaga og inn í Nafnlausadal. Ljósmynd/Almannavarnir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka