Oddur Þórðarson
Framboðsfrestur til prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík rann út klukkan fjögur síðdegis í gær. Prófkjörið fer fram daga 4. og 5. júní næstkomandi.
Ljóst er að baráttan um efstu sætin verður hörð: Í 1. sæti gefa kost á sér Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Í 2. sæti gefa kost á sér þingmennirnir Brynjar Níelsson og Sigríður Ásthildur Andersen. Birgir Ármannsson þingmaður gefur þá kost á sér í 2.-3. sæti.
Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, sækist eftir þriðja sætinu, en í 3.-4. sæti gefa kost á sér Hildur Sverrisdóttir, sem sat á þingi 2017, og Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi.
Í 4. sæti gefa kost á sér Friðjón R. Friðjónsson almannatengill og Ingibjörg H. Sverrisdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Í 4. - 5. sæti gefur kost á sér Herdís Anna Þorvaldsdóttir, varaþingmaður og athafnakona.
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft fimm þingmenn alls í Reykjavík, þrjá í Reykjavíkurkjördæmi norður en tvo í Reykjavíkurkjördæmi suður. Sjálfstæðismenn í Reykjavík kjósa um einn Reykjavíkurlista sem skiptist síðan að prófkjörinu loknu á kjördæmin tvö. Þannig verða tveir hlutskörpustu frambjóðendurnir í prófkjörinu oddvitar flokksins í hvoru Reykjavíkurkjördæminu fyrir sig.