Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti í dag útkalli vegna reiðhjólamanns sem slasaðist við Hafravatn. Viðkomandi var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku til aðhlynningar.
Fram kemur í dagbók lögreglu að nokkur fjöldi ökumanna hafi verið handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.
Þá var tilkynnt um eld í golfskálanum á Korpúlfsstöðum, en búið var að slökkva eldinn þegar lögregla og slökkvilið kom á vettvang. Slökkvilið aðstoðaði með reykræstingu.
Þá var nokkuð um þjófnað og innbrot í dag. Um klukkan 12:30 var tilkynnt um þjófnað í verslun í miðbænum, en gerendur, sem voru þrír, voru farnir af vettvangi þegar lögregla kom á vettvang.
Skömmu síðar sáu vegfarendur til þriggja manna stela rafmagnsvespu í miðbænum, en þeir höfðu klippt á hjólalás sem var festur í hjólið. Lögregla fann mennina nokkru seinna og reyndust þetta vera sömu aðilar og í þjófnaðarmálinu stuttu áður.