Tvö ný smit í gær

mbl.is/Ásdís

Tveir greindust í gær með kórónuveiruna innanlands í gær. Báðir voru í sóttkví við greiningu. Einn greindist með virkt smit við fyrri skimun á landamærunum í gær og annar bíður niðurstöðu mótefnamælingar.

Alls eru 165 í sóttkví og 1.361 er í skimunarsóttkví. Óbreyttur fjöldi er í einangrun og fyrir helgi, 63. Fjórir eru á sjúkrahúsi vegna Covid-19.

Skimaðir voru 828 innanlands í gær og 837 á landamærunum. 

Nú eru örlítið fleiri með kórónuveiruna á höfuðborgarsvæðinu heldur en á Norðurlandi vestra. Á höfuðborgarsvæðinu eru 29 virk smit á meðan þau eru 26 á NV-landi. Miklu fleiri eru í sóttkví á NV-landi eða 105 en 38 á höfuðborgarsvæðinu. 

Á Suðurnesjum eru tvö virk smit og einn í sóttkví. Á Suðurlandi eru 11 smit og 10 í sóttkví. Einn er í sóttkví á Austurlandi og á Norðurlandi eystra er eitt smit og tveir í sóttkví. Á Vestfjörðum er ekkert smit en einn í sóttkví og á Vesturlandi eru þrír í einangrun og sami fjöldi í sóttkví. Fjórir eru óstaðsettir í hús í sóttkví.

Frá miðnætti gildir fyrir sveitarfélögin Skagafjörð og Akrahrepp reglugerð heilbrigðisráðherra, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sem sett var 7. maí sl. með þeim takmörkunum sem þar er kveðið á um en vegna hópsmits voru reglur harðari þar en annars staðar á landinu í síðustu viku. 

Aðgerðastjórnin á Norðurlandi vestra telur að með þeim aðgerðum sem að gripið var til hafi tekist að ná tökum á hópsmitinu. Engin smit hafa greinst utan sóttkvíar undanfarna viku þar. 

Börnum með smit hefur fjölgað um helgina og er nú eitt barn yngri en eins árs með Covid. Fjögur börn á aldrinum 1-5 ára er með smit og eitt barn á aldrinum 6-12 ára. Átta smit eru í aldurshópnum 13-17 ára og tíu á aldrinum 18-29 eru með Covid. 11 smit eru í aldurshópnum 30-39 ára og 13 meðal 40-49 ára. Tólf smit eru meðal fólks á sextugsaldri og þrjú hjá 60-69 ára. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert