Eitt þeirra mála sem bar á góma í samtali Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Antonys Blinkens, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var eldgosið í Geldingadölum.
Blinken sagðist hafa séð eldgosið úr fjarska er hann ók þar framhjá.
„Ég þóttist vera jarðfræðingur þannig að ég útskýrði þetta allt,“ sagði Katrín hress í bragði að loknum fundi þeirra í Hörpu.
Blinken hafði sagt henni að enginn hefði útskýrt gosið fyrir honum og tók hún það því að sér með glöðu geði.
Á meðal annarra mála sem þau ræddu voru kórónuveirufaraldurinn og hvað Bandaríkin og Ísland geti gert til að aðstoða við bólusetningu í heiminum öllum.
Sömuleiðis var ný stefna Bandaríkjanna í loftslagsmálum rædd og sérstaklega ræddu þau um möguleikann þegar kemur að kemur nýsköpun og samstarfi í þeim málum.
Staðan fyrir botni Miðjarðarhafs var rædd og ítrekaði Katrín það sem kom fram á blaðamannafundi Blinkens með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í hádeginu um að Bandaríkin hvetja til vopnahlés á milli Ísraela og Palestínumanna.
„Ég fór yfir afstöðu íslenskra stjórnvalda og hvernig við sæjum þessi mál. Við hefðum viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki og lögðum áherslu á tveggja ríkja lausn og að það væri mjög mikilvægt að stórveldi beittu sér,“ greindi Katrín frá.
Kynjajafnrétti og málefni norðurslóða voru einnig rædd.
Spurð hvort eitthvað hefði komið á óvart í viðræðunum nefndi Katrín tvennt:
„Það er mjög breyttur tónn í loftslagsmálum og mikill áhugi á möguleikum þar og auknu samstarfi á þeim vettvangi. Sömuleiðis var áhugi, sem er ánægjulegt, að ræða jafnréttismál því venjulega erum það bara við sem höfum áhuga á því,“ sagði Katrín, sem minntist á sömu mál í fréttatilkynningu sem var gefin út að loknum fundinum.