Gjaldskyldu hefur verið komið á við bílastæðið við gönguleiðina sem liggur að eldgosinu í Geldingadölum. Blaðamaður mbl.is fór á stúfana og spurði gesti sem komu að skoða gosið um skoðun þeirra á gjaldskyldunni. Allir sem mbl.is ræddi við tóku gjaldskyldunni vel.
Í gærkvöldi staðfesti Sigurður Guðjón Gíslason, einn landeigenda að Hrauni, í samtali við mbl.is að gjaldskylda yrði á bílastæði við gönguleiðina að eldgosinu, en í gær voru sett upp skilti þar sem breytingin var tilkynnt.
Samkvæmt skiltunum, sem sett hafa verið upp á nokkrum stöðum á veginum sem leiðir að bílastæðinu, kostar það að leggja bíl á stæðinu í heilan dag 1.000 krónur. Gjaldið er hægt að greiða annars vegar í gegnum Parka-appið og hins vegar í gegnum vef Parka. Eftirlit með gjaldskyldunni er þó ekki hafið.
„Mér finnst það bara sjálfsagt af þeim að láta okkur borga fyrir að nota svæðið sitt. Þeir eiga skilið að fá borgað fyrir þetta og þakkir fyrir að leyfa okkur að nota þetta. Ég veit ekki hvað ég verð lengi að labba þetta. Það er talað um að þetta taki þrjátíu mínútur. Ætli þetta sé ekki bara eins og að leggja í bílastæði í Reykjavík?“ sagði Grétar Karlsson sem var að leggja af stað í göngu að gosinu.
Hróðmar Bjarnason var á svipaðri skoðun:
„Ég held þetta sé nú bara sjálfsagt mál að gera þetta því það eru ákveðnar framkvæmdir í gangi hér og einhvern veginn þarf að greiða fyrir þær. Ég er ekki á móti þessu. Ég held að það verði framtíðin hér líka, eins og í útlöndum, að menn þurfi að greiða eitthvað aðeins fyrir að komast á staði.“
Erla Mjöll Grétarsdóttir og Kristín Ingvadóttir voru að gera sig klárar í gönguna þegar mbl.is hitti á þær:
„Við setjum það allavega ekki fyrir okkur,“ segja þær um gjaldskylduna.
Georg Braunsteiner, ferðamaður frá Þýskalandi, var einnig jákvæður í garð gjaldskyldunnar. Vísaði hann til þess að víða annars staðar þyrfti að greiða fyrir að sjá áhugaverða staði og að það sama gilti um þetta.