Hræðist ekki að vera fyrstur að hækka vexti

"Þurfum ekki að hræðast að vera fyrstir" mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir bankann ekki hræðast það að vera fyrstur vestrænna seðlabanka til að hækka stýrivexti þrátt fyrir 11% atvinnuleysi. 

Seðlabankinn tilkynnti í dag þau áform peningastefnunefndar að hækka stýrivexti til að stemma stigu við aukinni verðbólgu.

Meðan Seðlabanki Íslands berst við of háa verðbólgu eru flestar aðrar þjóðir að berjast við of lága verðbólgu. Vísbendingar benda til þess að umskipti hafi orðið og nú þurfi að draga úr stuðningi hratt en ekki of hratt.  „Við erum því í raun í annarri og betri stöðu en aðrir seðlabankar og þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að vera trendsetterar,“ sagði Ásgeir á kynningarfundi peningastefnumálanefndar.

Ásgeir bendir á að vel hafi gengið að beita peningastefnu á síðasta ári. Kröftugri einkaneysla og hækkun húsnæðisverðs eru merki um að þær aðgerðir sem gripið var til hafi heppnast betur en nefndin þorði að vona og jafnvel betur en æskilegt sé.

Útflutningsáfallið hefur vegið þungt og því var mikilvægt að örva innlenda eftirspurn til að vega upp á móti. „Það hefur gengið vel að örva kerfið svo nú viljum við tempra það,“

Þjóðin stendur frammi fyrir 11% atvinnuleysi en peningastefnunefnd telur það ekki eiga að hafa áhrif á ákvörðun um hækkun stýrivaxta. „Verðbólgan er töluvert ofan við okkar markmið. Því er þetta rökrétt ákvörðun enda myndi það ekki hjálpa atvinnuleysinu ef verðbólgan færi úr böndunum,“ sagði Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri á fundinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert