Segir gjaldskylduna óumflýjanlega

Eldgos í Geldingadölum.
Eldgos í Geldingadölum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Guðjón Gíslason, einn landeigenda að Hrauni, staðfestir í samtali við mbl.is að gjaldskylda verði á bílastæði við gönguleiðina að eldgosinu.

„Það er komið að því að það þurfi að fara í talsverða uppbyggingu á svæðinu þannig það er óumflýjanlegt fyrir landeigendur að fara út í þetta,“ segir Sigurður.

Eftirlit með gjaldskyldunni er ekki hafið á svæðinu en skilti voru sett upp í dag. Sigurður bendir á að búið sé að opna fyrir stæðin í parka-appinu svo fólk geti byrjað að borga en á morgun fer út formleg tilkynning þess efnis að gjaldskylda verði tekin upp við eldgosið. Síðan mun rafrænt eftirlit fara í gang hægt og rólega.

Gönguleiðin stytt um þrjá kílómetra                    

Þá á að sögn Sigurðar að leggja ný bílastæði nær svæðinu og leggja veg til að tryggja öryggi fólks og auðvelda aðgang að gosinu. Mun þá uppbygging á svæðinu koma til með að stytta gönguleiðina að eldgosinu um þrjá kílómetra.

Sigurður vonar að þetta mæti góðum skilningi og er það reynsla hans að fólk vilji fá betri bílastæði og betra aðgengi að svæðinu.

„Ég held það sé bara allra hagur að ráðast í þessar framkvæmdir.“

Skiltið sem um ræðir.
Skiltið sem um ræðir. Ljósmynd/Kristján Örn Kristjánsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka