Kórónuveirusmitin tvö sem greindust utan sóttkvíar í gær komu upp á vinnustað á höfuðborgarsvæðinu. Fólkið hafði byrjað að finna fyrir einkennum tveimur til þremur dögum áður en það greindist smitað en fólk byrjar almennt að smita um einum sólarhring áður en einkenni koma upp.
Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.
„Þetta eru tvö smit á höfuðborgarsvæðinu. Við eigum eftir að fá meiri upplýsingar úr raðgreiningu frá Íslenskri erfðagreiningu og eins úr rakningunni,“ segir Þórólfur.
Spurður um stærð vinnustaðarins segist hann ekki klár á því hversu margir starfi þar en nokkuð margir hafi verið útsettir.
„Það er ekki komin nákvæm tala á það hversu margir fara í sóttkví. Við munum væntanlega skima vinnustaðinn. Þetta er fólk sem var búið að vera með einkenni í tvo, þrjá daga og hefur þarna náð að útsetja einhvern fjölda,“ segir Þórólfur.
Spurður hvort það sé ekki slæmt að þeir sem smituðust hafi verið búnir að finna fyrir einkennum í nokkra daga áður en þeir greindust segir Þórólfur:
„Fólk er byrjað að smita svona einum sólarhring áður en einkenni byrja.“