Jón Ársæll og RÚV sýknuð í máli vegna Paradísarheimtar

Jón Ársæll Þórðarson.
Jón Ársæll Þórðarson. Ljósmynd/RÚV

Jón Ársæll Þórðarson, Steingrímur Jón Þórðarson og RÚV hafa verið sýknuð af Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem viðmælandi Jóns í sjónarvarpsþáttunum Paradísarheimt höfðaði á hendur þeim. 

Viðmælandinn hafði krafist fjögurra milljóna króna miskabóta í málinu, en hún hélt því fram að viðtöl við sig hefðu verið birt án hennar samþykkis. Konan er öryrki sem segist hafa verið greind með kvíðaröskun og barist við áfengisvanda. 

Fyrir dómi hélt konan því fram að hún hefði einungis veitt samþykki fyrir því að viðtöl yrðu tekin upp, en þó ekki að þau yrðu birt opinberlega. Vísaði hún til þess að Jón Ársæll og Steingrímur séu með reyndustu mönnum á sínu sviði og að beita ætti ströngu sakarmati um störf þeirra, með hliðsjón af siðareglum Blaðamannafélags Íslands. 

Héraðsdómur taldi að konan hefði verið meðvituð um tilgang viðtalanna og mætt í þau sjálfviljug. Í ljósi reynslu sinnar og þekkingar af fjölmiðlum svo og í ljósi fyrri samskipta konunnar við Jón Ársæl og Steingrím, hafði verið ljóst að tilgangur viðtala við hana væri sá að birta viðtölin í Paradísarheimt, enda var vandséð að tilgangur með því að taka upp viðtölin hafi geta verið annar. 

Þá var ekki talið að birting viðtalanna brytu gegn persónuverndarlögum, stjórnarskrá eða Mannréttindasáttmála Evrópu. Jón og Steingrímur hefðu verið í góðri trú um að samþykki fyrir birtingu viðtalanna lægi fyrir. Þættirnir voru unnir af Jóni og Steingrími en sýndir á RÚV. 

Árið 2019 dæmdi héraðsdómur Jón Ársæl og RÚV til að greiða Gyðu Dröfn Grétarsdóttur eina milljón króna fyrir að birta viðtal við hana án hennar samþykkis í þætti Paradísarheimtar. Í málinu viðurkenndu þáttagerðamenn og RÚV sök. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert