Sigurður Ingi Jóhannson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir það í höndum Reykjavíkurborgar ef hún vilji úthýsa Landhelgisgæslunni og það séu aðrir staðir meira en tilbúnir að taka við henni. Það sé sjáfsagt að skoða þá möguleika.
Landhelgisgæslan er með aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli en líkt og fram kom í frétt Morgunblaðsins í dag er ekki lengur pláss fyrir allar flugvélar og þyrlur Gæslunnar í flugskýlinu sem þar er. Þá sé húsið þar orðið gamalt og aðstaðan slæm.
Haft var eftir formanni skipulagsráðs borgarinnar, Pawel Bartoszek, að þar sem fyrirhugað væri að flytja Reykjavíkurflugvöll á annan stað væri eðlilegt að starfsemi tengd honum, svo sem aðstaða fyrir loftför Gæslunnar, flytjist einnig. Rétt væri því að beina framtíðaruppbyggingu aðstöðu Landhelgisgæslunnar annað. Nefndi hann Hvassahraun sem líklegustu staðsetningu nýs flugvallar.
Sigurður Ingi er ósammála því að staðsetning aðstöðu fyrir Landhelgisgæsluna og staðsetning innanlandsflugvallar þurfi að fylgjast að. Þetta séu algjörlega aðskilin mál.
„Ég er ekki sammála þessum rökum sem þarna eru sett fram. Við erum auðvitað að skoða hugsanlegar aðrar staðsetningar [fyrir innanlandsflugvöll]. Hvassahraun hefur helst verið inni í myndinni. Við vitum hins vegar öll hvað jarðfræðingar eru að tala um þar og við munum væntanlega fá niðurstöður fyrsta áfanga endurnýjaðs áhættumats fyrir Hvassahraun vegna jarðhræringa frá Veðurstofu Íslands síðla þessa árs eða um áramót. Það hefur líka komið fram að það muni taka 15 til 20 ár að byggja upp nýjan innanlandsflugvöll ef niðurstaðan yrði jákvæð.“
„Það er hins vegar enginn bilbugur á okkur hjá ríkinu. Ef það myndi finnast jafn góður eða betri staður fyrir innanlandsflugvöll þá myndum við fara í þá uppbyggingu. Það er bara ekki í pípunum eins og er, þannig að það yrði þá bara sjálfstæð ákvörðun Reykjavíkurborgar ef þeir ætla að úthýsa Landhelgisgæslunni hér og nú,“ segir Sigurður Ingi.
Sigurður Ingi segir að aðstaða Gæslunnar á Reykjavíkurflugvelli sé óboðleg.
„Ef Reykjavíkurborg hefur ekki áhuga á að hýsa Landhelgisgæsluna hlýtur hún að þurfa að skoða það.
Ég held að það ætti að skoða þá staði sem hafa verið umræddir, þar á meðal Suðurnesin, og ég hef þá trú að Landhelgisgæslan sé að því. Þau hafa líka verið uppi með þau sjónarmið að það sé ekki pláss fyrir þau í Reykjavíkurhöfn og það hafa verið hugmyndir um að leggja upp í Njarðvíkurhöfn.
Það hefur ekkert með það að gera að það verði byggður upp flugvöllur í Hvassahrauni, það er alveg sérstakt verkefni,“ segir Sigurður Ingi.