Yfir 80 þúsund eru fullbólusettir eða 24,8% þeirra landsmanna sem eru 16 ára og eldri. Stór bóluefnavika er framundan því von er á yfir 30 þúsund skömmtum af bóluefni í næstu viku samkvæmt afhendingaráætlun bóluefna á vef stjórnarráðsins.
Þetta þarf hins vegar ekki að þýða að allir þessir skammtar fari í dreifingu í næstu viku þar sem þetta segir aðeins til um í hvaða viku bóluefnið er væntanlegt til landsins.
Líkt og kom fram á mbl.is í gær verður bólusett með 7.700 skömmtum af Pfizer í Laugardalshöllinni á miðvikudag og rúmlega þrjú þúsund skammtar verða gefnir af AstraZenca á fimmtudag og þar er bara um seinni bólusetningu að ræða. Konur yngri en 55 ára sem fengu fyrri sprautu af AstraZeneca geta valið um Pfizer eða AstraZeneca í seinni sprautu.
Í viku 21 er von á 14.040 skömmtum af Pfizer bóluefninu,10.560 af AstraZeneca og 2.640 skömmum af Moderna. Von er á 2.880 skömmtum af Janssen bóluefninu en það þarf aðeins að gefa einu sinni.
Vikuna á eftir er von á 19.890 skömmtum af Pfizer og gildir það sama fyrir næstu tvær vikur á eftir. Í viku 25 og 26 (20. júní-3. júlí) er síðan von á 21.060 skömmtum af Pfizer hvora vikuna.
Á covid.is kemur fram að 28,1% séu hálfbólusettir eða 83.351 og þeir sem eru fullbólusettir eru 80.464 talsins.
55% kvenna 16 ára og eldri hafa fengið að minnsta kosti eina bólusetningu á meðan 45% karla 16 ára og eldri hafa fengið að minnsta kosti eina bólusetningu. Hér er miðað við lok 19. viku þannig að þar vantar inn upplýsingar um þá sem eru bólusettir í þessari viku. Um allt land var verið að bólusetja í vikunni.