Vilja vita hver raunkostnaður sérgreinalækninga er

Sjúkratryggingar Íslands segja að fullyrðingar formanns Læknafélags Reykjavíkur séu rangar.
Sjúkratryggingar Íslands segja að fullyrðingar formanns Læknafélags Reykjavíkur séu rangar. mbl.is/Sigurður Bogi

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) segja fullyrðingar formanns Læknafélags Reykjavíkur, Þórarins Guðnasonar, um að einingarverð sérgreinalækna hafi ekki verið verðbætt á síðustu árum, séu rangar. Það hafa þau sannarlega verið gerð, að sögn SÍ, reglulega og í takt við samningsbundin ákvæði, allt til ársins 2020.

Þetta áréttar SÍ í fréttatilkynningu þar sem grein Þórarins í Morgunblaði gærdagsins er mótmælt.

Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur.
Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Dæmi um tugmilljóna greiðslur til lækna í hlutastarfi

„Í greininni setur formaðurinn fram valdar tölur og vísitölur til sönnunar þess að innheimta aukagjalda af sjúklingum sé nauðsynleg til að sérgreinalæknar geti rekið þjónustu sína án taps. Þetta er ósannað. Stór hluti sérgreinalækna fær í sinn hlut greiðslur frá SÍ sem nema hundruðum þúsunda króna fyrir hvern dag sem þeir sinna stofuvinnu.

Mörg dæmi eru um að heildargreiðslurnar nemi mörgum tugum milljóna á ári til einstakra lækna, þrátt fyrir að þeir sinni stofuþjónustu aðeins í hlutastarfi. Læknar þurfa vissulega að standa straum af ýmsum kostnaði við sinn stofurekstur, en engu að síður eru þetta mjög háar greiðslur,“ segir meðal annars í fréttatilkynningu SÍ.

Vilja opinbera kostnaðargreiningu 

Auk þess segir að ítarleg greining á rekstri sérgreinalækna myndi varpa ljósi á þörf þeirra til þess að innheimta aukagjöld. Segir að sú greining yrði að vera birt opinberlega í kjölfarið en engar slíkar upplýsingar eru aðgengilegar í dag og því ekki hægt að meta raunkostnað af þjónustu sérgreinalækna eða framlegð af starfsemi þeirra.

„Það þarf að fara fram kostnaðargreining á þjónustunni, sem allir samningsaðilar geta verið ásáttir um. Það er fullur vilji af hálfu Sjúkratrygginga að tryggja að samningsbundnar greiðslur til sérfræðilækna haldi í við verðlagsþróun en þá þurfa allar tölur að koma á borðið, ekki bara sumar,“ segir í lok tilkynningar SÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert