Stefnt er að því að halda Gleðigönguna, hápunkt Hinsegin daga, í ár. Þetta segir Ásgeir Helgi Magnússon, formaður Hinsegin daga, í samtali við mbl.is en aflýsa þurfti skipulögðum fræðsluviðburðum og skemmtunum á Hinsegin dögunum í fyrra sökum annarrar bylgju Covid-19 sem skall á helgina á undan.
„Við erum í góðu samstarfi við borgina og sóttvarnayfirvöld og stígum öll skref í okkar skipulagningu í takt við þeirra tilmæli. Útlitið er þannig að þau stefna að því að klára bólusetningu fyrir lok júlí sem hentar okkur auðvitað mjög vel þar sem hátíðin er í ágúst,“ segir Ásgeir en þess ber að geta að auk þess er stefnt að afléttingu allra samkomutakmarkana fyrir 1. júlí.
Gagnamagnssmitið setji strik í reikninginn
„Maður er að sjá núna í ljósi síðustu frétta úr Eurovision að þó svo bóluefnið sé komið í líkamann er ekki endilega víst að það sé komin full virkni. Mögulega verður enn þá grímuskylda, við erum að velta ýmsum sviðsmyndum fyrir okkur. Við gerum þetta að sjálfsögðu með öryggi gesta í fyrirrúmi,“ segir hann en á miðvikudaginn var greint frá því að tveir liðsmenn íslenska Eurovision-hópsins hefðu smitast af Covid-19 í Rotterdam þrátt fyrir að hafa verið bólusettir með bóluefni Janssen um tveimur vikum fyrir brottför.
„Okkar stærsti viðburður er auðvitað Gleðigangan sem er jú nokkurs konar krúnudjásn hátíðarinnar og mesti sýnileikinn í kringum hana þannig við reynum að leita leiða til þess að hún eigi sér stað jafnvel innan takmarkana ef svo fer,“ segir Ásgeir og segir að verði enn þá strangar samkomutakmarkanir þá reyni það á hugmyndaflugið hvað varðar Gleðigönguna og þar með sýnileikann en í fyrra á 20 ára afmæli Gleðigöngunnar var farið aðrar leiðir í sýnileika hátíðarinnar.
Þá var fengið fólk til þess að ganga Gleðigönguna á sínum eigin vegum og settar myndir af því á netið. Þar að auki var til að mynda strætisvagn tileinkaður transfólki.
„Við vissum þá frá upphafi að það yrði ekki af Gleðigöngunni í sinni eðlilegu mynd þannig við lögðum það svolítið í hendurnar á fólki að taka sína eigin göngu hvort sem það væri litríkur á helgafelli eða Gleðiganga með vinahópnum við Ægisíðu,“ segir hann en stefnt er að því að halda Gleðigönguna í sinni eðlilegu mynd í byrjun ágúst.
„Okkar aðalmarkmið er þó að hátíðin fari fram og að regnboginn verði sýnilegur í borginni í byrjun ágúst,“ segir hann enda snúist hátíðin fyrst og fremst um það að hinsegin fólk finni að það sé ekki eitt í þessu.