Um tuttugu mínútur í miðnætti var í gærkvöldi tilkynnt um rafskútuslys í Vesturbæ Reykjavíkur. Lögregla kom að ölvuðum manni liggjandi utandyra og var leiguhlaupahjól við hlið hans. Maðurinn var töluvert blóðugur í andliti, efri vör hans mjög bólgin og tvær tennur brotnar.
Að því er fram kemur í dagbók lögreglu kom sjúkrabifreið á vettvang og hlúði að manninum, en hann vildi ekki fara með bifreiðinni á bráðadeild.
Um 15 mínútur í miðnætti var tilkynnt um rafskútuslys í Hafnarfirði. Kona hafði fallið af rafskútunni og var sögð meðvitundarlaus með blæðingu úr höfði. Ekki fengust nánari upplýsingar um líðan konunnar.
Þá var tilkynnt um þriðja rafskútuslysið í Hafnarfirði klukkan 3:30, en ekki fengust upplýsingar um hvort einhver hafi slasast.