Sorglegast að sagan sé sönn

„Ég vil gera þetta vegna þess að það skiptir máli …
„Ég vil gera þetta vegna þess að það skiptir máli að hafa hátt,“ segir Kara. Ljósmynd/Sólveig Svava

Á Instagram-reikningnum Sorgleg deilir Kara Kristel sögum kvenna af íslenska heilbrigðiskerfinu, sögum sem mörgum gæti þótt erfitt að lesa. Kara hefur sjálf neikvæða reynslu af íslensku heilbrigðiskerfi, reynslu sem öll tengist því að hún er kona, og vill sjá raunverulegar breytingar.

„Sögurnar sem ég fæ og birti á þessum Instagram-reikningi fjalla almennt um það hversu margar konur þurfa að ganga í gegnum ömurlega hluti í heilbrigðiskerfinu bara vegna þess að þær eru með leg,“ segir Kara.

View this post on Instagram

A post shared by @sorgleg

Fyrir um hálfu ári greindi hún frá því að hún væri ein af þeim konum sem hefðu fengið vitlausa niðurstöðu úr krabbameinsskimun frá Krabbameinsfélagi Íslands. Eftir að hún sagði frá því höfðu stelpur samband við hana og sögðu henni frá neikvæðri reynslu af íslensku heilbrigðiskerfi. Kara vildi safna þessum sögum saman og heyra frá fleirum og stofnaði hún því Sorgleg. Þar birtir hún sögur kvenna af heilbrigðiskerfinu, með leyfi hverrar konu fyrir sig.

„Ég vil gera þetta vegna þess að það skiptir máli að hafa hátt,“ segir Kara. „Svo fólk sjái að þetta eru ekki bara einhverjar nokkrar stelpur að vera dramatískar. Þetta eru svo margar stelpur og konur á öllum aldri og í öllum stéttum.“

View this post on Instagram

A post shared by @sorgleg

Sett á pilluna og blæddi í nokkra mánuði

Kara hefur gengið í gegnum ýmislegt í íslensku heilbrigðiskerfi og hófst neikvæð reynsla hennar þegar hún var aðeins fimmtán ára gömul og var sett á getnaðarvarnarpilluna.

„Það er bara sjálfsagðasta mál í heimi að setja allar fimmtán ára stelpur á pilluna án þess að pæla í afleiðingunum. Þar byrjar sagan mín af slæmri reynslu af heilbrigðiskerfinu,“ segir Kara.

„Ég var sett á pilluna 15 ára og mér blæddi í nokkra mánuði. Öllum fannst það bara eðlilegt. Ég var búin að fara til fjölda lækna en loksins þegar ég hitti ungan lækni á Læknavaktinni sagði hann mér að þetta væri ekki eðlilegt og tók mig af þessari pillu strax. Þá lagaðist þetta.

Eftir tíu ár af þessari heilbrigðisþjónustu og trekk í trekk einhverjum mistökum eða illri meðferð var ég bara: ókei, nei, nú segi ég stopp,“ segir Kara sem heldur einmitt úti hlaðvarpi undir því nafni; Nei nú segi ég stopp.

View this post on Instagram

A post shared by @sorgleg

Fæddist nær dauða en lífi

Kara eignaðist son í febrúarmánuði árið 2015. Þá fékk hún meðgöngusykursýki og átti ekki að ganga lengra en 40 vikur. Hún var akkúrat sett á föstudegi og setti það strik í reikninginn að læknirinn sem átti að taka á móti barninu var á leið í frí. Því var enginn læknir á staðnum þegar Kara eignaðist barnið, þótt þörf hefði verið á.

„Ég fór af stað á settum degi, en það var enginn læknir og sonur minn fæddist nær dauða en lífi,“ segir Kara.

Hún tekur fram að hún kenni ekki lækninum sjálfum um heldur mönnun heilbrigðiskerfisins. Kara kallar eftir því að stjórnvöld geri sitt til þess að konur hætti að lenda í neikvæðum upplifunum innan heilbrigðiskerfisins.  

„Þetta er í raun mjög stórt mál sem lagast ekki nema margir alls staðar frá taki þátt. Almenningur, stjórnvöld, ráðamenn og heilbrigðisstarfsfólk, það þurfa allir að opna augun,“ segir Kara.  

Hljómar eins og skáldsaga

Saga Köru er sú fyrsta sem birtist á Instagram-síðu Sorgleg.

„Sagan mín hljómar eins og skáldsaga en það sorglegasta við mína Sorgleg-sögu er að þetta gerðist allt,“ segir Kara.  

Hún hefur fengið viðbrögð við Sorgleg frá verðandi heilbrigðisstarfsfólki sem vill leggja sitt af mörkum til þess að gera upplifun kvenna af heilbrigðiskerfinu jákvæða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert