Mikið var rætt um Samherjamálið og „skæruliðadeild“ fyrirtækisins í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Stjórnmálamenn virðast sammála um það að svona framgangur sé óboðlegur í nútímalýðræðisríki.
Píratar, Viðreisn og Samfylkingin lögðu áherslu á að stjórnvöld væru ekki að gera nógu mikið til þess að koma í veg fyrir að svona starfsemi liðist og sagði Logi Einarsson að það verði að bregðast við þessari þróun. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra benti þó á að ný fjölmiðla lög hafa verið samþykkt og einnig ný lög um vernd uppljóstrara.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, dró í efa hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra og sagði að henni finnst skrítið að hann hafi enga skoðun á málinu.
„Hvað eigum við að segja með sjávarútvegsráðherra sem hefur ekkert um þetta risavaxna mál að segja sökum æpandi vanhæfis, finnst hæstvirtum ráðherra virkilega ekkert athugavert við það að hann sitji í þessu embætti á meðan Samherji stundar fordæmalausar árásir á alla sem voga sér að gagnrýna framkvæmdarhætti fyrirtækisins,“ sagði Þórhildur.
Kristján tók illa í þessi ummæli Þórhildar um vanhæfi hans og vísaði í það að hún væri fyrsti og eini þingmaðurinn sem hefur fengið áminningu fyrir að hafa brotið siðareglur Alþingis.
Kristján sagði að fyrstu viðbrögð hans við Samherjamálinu hefðu verið þau að hann gerði kröfu um það að forsvarsmenn fyrirtækisins gengju hreint fram og gerðu hreint fyrir sínum dyrum.
„Ég hef áhyggjur að því ef það er eitthvað óeðlilegt í gangi með hvaða hætti fyrirtæki blandi sér í stjórnmálabaráttu einstakra stjórnmálaflokka, verkalýðsfélag o.s.frv. ef fyrirtæki taka með einbeittum hætti ákvörðun um það að fara beita sér með slíkum hætti þá er það að allra mati eitthvað sem er ekki ásættanlegt,“ sagði Kristján.