„Hér er enginn nafnlaus dalur,“ segir Hörður Sigurðsson á Hrauni í Grindavík. Eldgossvæðið í Geldingadölum er í landi jarðarinnar, þar sem flest hefur nöfn. Að undanförnu hefur í fréttum oft verið sagt frá Nátthaga. Inn af honum er dalverpi þar sem glóandi hraun hefur runnið niður síðustu daga svo komin er tota niður í dalinn. Haldi þessi atburðarás áfram gæti hraun farið fram allan dalinn, yfir Suðurstrandarveg og út í sjó. Slík atburðarás mun þó taka talsverðan tíma.
„Hraunið rennur úr Syðri-Meradal en sá staður hefur í fréttum verið kallaður Nafnlausidalur, sem er merkingarleysa. Hraunið rennur síðan niður í Nátthaga. Við heimafólk hér þekkjum þetta vel og nöfnin eru okkur töm,“ segir Hörður sem er frá Hrauni og öllum staðháttum kunnugur, meðal annars sem fjallkóngur í smalamennsku á þessum slóðum. Áður var stundaður talsverður fjárbúskapur í Grindavík og ýmis örnefni á svæðinu vísa til landbúnaðar og skepnuhalds.
Þegar gengið er frá Suðurstrandarvegi að gosstöðvunum í Geldingadölum, þar sem Fagradalshraun rennur fram, fara flestir um svonefnda gönguleið A eins og hún heitir á kortum. Þar hefur verið útbúinn góður göngustígur sem liggur í sneiðingum. Þar heitir Nátthagakriki, segir Hörður á Hrauni, skýrt og skorinort. Þegar komið er upp brekkurnar í krikanum heita Meradalshnjúkar og þeir aðskilja Geldinga- og Meradali, þar með talið þann syðri sem fyrr er nefndur.
Mikill straumur fólks hefur verið að gosstöðvunum síðustu daga, enda aðstæður hinar bestu. Þegar blaðamaður var á svæðinu í fyrradag voru erlendir ferðamenn þar áberandi, til dæmis frá Bandaríkjunum; kátir hressir krakkar í ævintýraleit. Eins sáust Íslendingar sem sumir höfðu farið oft áður um svæðið.
Í dag verður hvasst á gosstöðvunum og gera má ráð fyrir að í hviðum nái vindstyrkurinn allt að 30 metrum á sekúndu. Eitthvað hægara verður á gönguleiðinni sjálfri, en þegar komið er að útsýnisstöðum má búast við að erfitt verði fyrir fólk að fóta sig í mestu hviðunum. Á morgun, föstudag, hvessir enn frekar og fer að rigna svo tæpast viðrar til ferðalaga. Vafalaust munu þó einhverjir fara á svæðið, þar sem landverðir eru við aðstoð og eftirlit og björgunarsveitarmenn aldrei langt undan heldur.