Skilur reiði foreldra

Dagur bendir á að hann hafi fylgst með málinu frá …
Dagur bendir á að hann hafi fylgst með málinu frá hlið borgarinnar og að sér finnist unnið hafa verið af heilindum og brugðist við niðurstöðum á hverjum tíma. mbl.is/Arnþór Birkisson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist skilja reiði foreldra en telur borgina þó hafa unnið af heilindum og brugðist við niðurstöðum á hverjum tíma.

Hann segir að skólasamfélagið standi frammi fyrir ákvörðun um hvort ráðast eigi í þær umfangsmiklu breytingar sem þörf er á, allar í einu eða í áföngum. Ef samstaða er um að gera það allt í einu segir hann að borgin muni tryggja fjármuni til þess.

Dagur segir að rökstuddar vísbendingar hafi komið inn á borð til borgarinnar um að ekki væri allt búið enn eftir síðustu framkvæmdir sem ráðist var í til að útrýma myglu úr Fossvogsskóla.

„Það var verið að benda á raka á nokkrum stöðum auk þess sem nokkur börn voru með einkenni. Því var ákveðið að svara kalli foreldra, rýma skólann, setja Korpuskóla undir skólastarfið og efna til starfshóps þar sem bæði Verkís og Efla eru við borðið,“ sagði Dagur um aðdraganda málsins.

Samstaða um að gera allt í einu

Niðurstaða skýrslunnar frá Eflu sýnir að þörf sé á frekari aðgerðum bæði vegna raka og svo vegna hefðbundins viðhalds, enda skólinn 50 ára gamall og því umfangsmikil viðhaldsverkefni framundan.

Dagur segir að valkostirnir sem skólasamfélagið og borgin standa frammi fyrir núna séu annarsvegar að klára allar framkvæmdirnar í einu með miklu átaki núna, sem vonandi tæki ekki nema eitt ár. Hinsvegar væri líka hægt að ráðast aðeins í framkvæmdir sem lúta að rakanum í sumar og raða svo öðrum framkvæmdum á sumur næstu ára.

„Ég get ekki betur heyrt en að það sé nokkuð góð samstaða um það að gera þetta allt í einu. Þannig verður þetta framtíðarframkvæmd auk þess sem brugðist verður við þessum ábendingum varðandi rakaskemmdir.“

Hann segir að þó nú liggi aðeins fyrir drög en ekki verkáætlun, sé sameiginlegur vilji allra að fara hratt í framkvæmdirnar svo þær dreifist ekki á fleiri ár og að borgin muni tryggja fjármuni til þess að það verði hægt.

Fossvogsskóli verður ekki rifinn

Þótt tillögurnar sem lagðar hafa verið fram gangi býsna langt segir Dagur að það komi ekki til greina að jafna skólann við jörðu og byggja nýjan. Framkvæmdir vegna rakaskemmda og myglu í Fossvogsskóla hafa staðið yfir í tvö ár með hléum og kostað borgina um 600 milljónir króna. Þær endurbætur sem búið er að gera í skólanum nýtast allar að sögn borgarstjóra þó áhyggjur séu af raka á stöku stað en þá þurfi að gera meira.

Framkvæmdir vegna rakaskemmda og myglu í Fossvogsskóla hafa staðið yfir …
Framkvæmdir vegna rakaskemmda og myglu í Fossvogsskóla hafa staðið yfir í tvö ár með hléum mbl.is/Hallur Már

Korpuskóli ekki fullnægjandi lausn

Nú hefur skólahald Fossvogsskóla verið fært yfir í húsnæði Korpuskóla í Grafarvogi. Sá skóli bar einnig vott um rakaskemmdir og var byggður utan um helmingi færri nemendur en eru í Fossvogsskóla.

Borgin fundaði með foreldrum og starfsfólki Fossvogsskóla í gær og voru þá bornar upp áhyggjur af smæð Korpuskóla, enda var hann byggður fyrir töluvert færri börn en Fossvogsskóli.

Korpuskóli var byggður fyrir helmingi færri nemendur en eru í …
Korpuskóli var byggður fyrir helmingi færri nemendur en eru í Fossvogsskóla. Ljósmynd/mbl.is

Dagur segir að ekki sé komin lausn á þessu máli en upp hafi komið hugmyndir um að hafa einhverja árganga í Korpuskóla og aðra í færanlegu húsnæði eða bráðabirgðahúsnæði. Einnig hefur komið til skoðunar hvort möguleiki væri að taka húsnæði Fossvogsskóla í notkun í einhverjum áföngum strax í haust.

Varðandi myglu í Korpuskóla segir Dagur að farið hafi verið kröftuglega í að bregðast við myglunni þar um páskana og viss rými séu ekki í notkun vegna raka. Sumarið sé þó framundan sem gefur tækifæri til að skoða málið betur.

Óþol gagnvart vinnubrögðum borgarinnar

Mikil ólga hefur verið meðal foreldra en í frétt mbl.is segir  Karl Óskar Þrá­ins­son, formaður for­eldra­fé­lags Foss­vogs­skóla, að borgin hafi eytt heilu ári í málþóf og hunsað skólasamfélagið og ákall þess um viðbrögð.

„Ég skil reiði foreldra,“ segir Dagur og bætir við að hann taki eftir því í gegnum fjölmiðla og í samtölum að fólk upplifi sig hafa þurft að berjast fyrir framgangi málsins. „Það hefur verið nokkuð óþol gagnvart því að við höfum viljað rýna í skýrslur og gögn og fá viðbótarupplýsingar áður en teknar eru stórar ákvarðanir og ég get alveg sett mig í þau spor.“

Dagur bendir á að hann hafi fylgst með málinu frá hlið borgarinnar og að sér finnist unnið hafa verið af heilindum og brugðist við niðurstöðum á hverjum tíma.

„Svona viðfangsefni er að því leyti flókið að þú sérð það ekki alltaf út frá byggingunum hvað bíður þegar framkvæmdir fara af stað. Það er líka fleiri en ein aðferð til þess að meta hættu á raka og verkfræðistofurnar nota mismunandi aðferðir við greiningu.“

Vonast eftir trausti foreldra

Nú hefur verið settur saman vinnuhópur með aðkomu bæði Verkís og Eflu, verkfræðistofa, og hefur Dagur fulla trú á að tillögurnar sem koma frá þeim verði góðar og traustar. Hann vonar að það skapist líka traust til þeirra ákvarðana meðal foreldra.

„Meginmarkmið borgarinnar í gegnum þetta allt saman er að halda utan um nefndarhópinn og starfsmannahópinn og láta skólastarfið ganga og ég verð að hrósa bæði starfsfólkinu, skólastjórnendum og krökkunum fyrir að halda uppi góðum skólabrag í gegnum þetta,“ segir borgarstjóri. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka