Heildstæð áætlun um fækkun bensínstöðva í Reykjavík verður kynnt á næstu vikum. Um nokkurt skeið hefur staðið til að fækka bensínstöðvum í borginni, en óvíða eru fleiri bensínstöðvar miðað við höfðatölu en í íslensku höfuðborginni. Ekki hefur þó legið fyrir áætlun um fækkunina, fyrr en nú.
Meðal þeirra bensínstöðva sem ekki eru í framtíðarskipulagi borgarinnar er bensínstöð N1 við Hringbraut, ein sú stærsta á landinu.
Áformin eru í ágætri sátt við olíufélög enda verðmætar lóðir sem selja mætti til uppbyggingar. Samkvæmt könnun FÍB frá árinu 2017 voru 28 bensínstöðvar í innan við fimm kílómetra radíus frá Landspítalanum.
Á fundi borgarinnar um samgöngumál á föstudag kynnti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skipulags- og hönnunarsamkeppni fyrir nýja samgöngumiðstöð á BSÍ-reitnum sem haldin verður nú í haust og nær hún einnig yfir bensínstöðvarreitinn.
Samkeppnina átti fyrst að halda haustið 2019, en henni var síðar frestað þar til skýrari mynd fengist á framgang borgarlínu og önnur atriði.
Í samtali við mbl.is segir Dagur að markmið borgarinnar sé að sinna samgöngum innan bæjar vel, en að samgöngumiðstöðin sé ekki síður hugsuð til að þjóna strætisvögnum og rútum sem aka um allt land, þar með talinni flugrútunni. Miðstöðin verði hjartað í þjónustu Reykjavíkur við landið allt í samgöngumálum.
Honum þykir ótrúlegt að Ísland bjóði ekki upp á betri aðkomu fyrir ferðamenn í ljósi þess hvað það er burðugt ferðamannaland. „Við getum gert svo miklu betur. Þess vegna viljum við fara í skipulagssamkeppni og hönnunarsamkeppni,“ segir hann svo.
Dagur segir ekki útilokað að verkefnið verði svo í framhaldinu boðið út og yrði þá uppbygging og rekstur á hendi annarra aðila.
Á fundinum nefndi Dagur einnig annað mál, sem áður hefur komið til umræðu, svokallað Hákort, en það er sérstakt samgöngukort fyrir háskólanema sem á að auðvelda þeim að nýta sér almenningssamgöngur.
Hákortin sækja innblástur til Bandaríkjanna en þar er að finna sambærilegt kerfið með svokallaðan Upass þar sem háskólanemar fá ódýrari kort í almenningssamgöngur, sem fjármögnuð yrðu með bílastæðagjöldum.
Aðspurður sagði Dagur að ekki væri útséð hvort kortin yrðu nemendum að kostnaðarlausu eða bara niðurgreidd að hluta. Hann kveðst finna fyrir miklum áhuga frá háskólanum að fara í þetta verkefni í tengslum við endurskipulagningu á bílastæðastýringu á svæðinu.
„Stúdentar hafa verið að þrýsta á þetta og þetta var í rauninni eitt af fyrirheitunum sem gefin voru í lífskjarasamningnum þannig að ef verkefnalistinn sem ríkið tók að sér er skoðaður sést að þetta er eitt þeirra atriða sem var þar en hefur ekki verið gert,“ segir Dagur en hann kveðst hissa yfir því að ekki hafi verið meira kallað eftir þessu enda sé um frábæra hugmynd að ræða.
„Verkefnið hefur í raun tvíþættan tilgang. Það er að auka notkun almenningssamgangna, stýra bílastæðum á háskólasvæðum og að ná markmiðum um góða borgarþróun og loftslagsmál – allt í einum og sama pakkanum. Þetta er svo auðvitað töluvert kjaramál fyrir stúdenta að þurfa ekki að reka bíl og hafa aðgengi að hágæða almenningssamgöngum,“ segir Dagur.
Á kynningarfundinum sagði hann að samkvæmt greiningu ætti stúdentakort eins og þetta að auka notkun almenningssamgangna strax um 16%.
Fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingar á umferðarlögum sem gera stofnunum, á borð við Háskólann, heimilt að rukka fyrir bílastæði og segist Dagur binda vonir við að það verði samþykkt fyrir þinglok.
Ekki sé endilega hugmyndin að hækka bílastæðagjöldin heldur frekar að láta gjaldtöku ná til stærra svæðis og endurskipuleggja bílastæðin umhverfis háskólann í heild. Langflest bílastæði við Háskóla Íslands eru nú gjaldfrjáls.