Vígbúist í Vesturbænum

Ungmennin í félagsmiðstöðinni Frosta hittast reglulega til að LARP-a.
Ungmennin í félagsmiðstöðinni Frosta hittast reglulega til að LARP-a. Félagsmiðstöðin Frosti

Hópur ungmenna í Vesturbænum undirbýr sig nú fyrir LARP-bardaga sem fer fram í Öskjuhlíðinni á morgun. Blaðamaður mbl.is hafði samband við Rúnar Örn Jóhönnu- og Marinósson, umsjónarmann hópsins og fékk hann til að útskýra leikinn.

„LARP er skammstöfun sem stendur fyrir Live Action Role Playing. Í grófum dráttum er þetta hlutverkaleikur sem gengur út á það að klæða sig upp sem persónu og leika hana. Þetta er svona ævintýra- og bardagaleikur. Það er stór hluti af þessu líka. Þetta er svona skylmingasport,“ segir Rúnar.

Rúnar á daginn, Slímon á kvöldin

Rúnar komst í kynni við LARP í gegnum starf sitt sem félagsráðgjafi hjá félagsmiðstöðinni Frosta í Hagskóla. „Ég tók við hópi í félagsmiðstöðinni sem var þá meira að spila Dungeons and Dragons en hafði líka verið að LARP-a smá. Hægt og rólega þróaðist hópurinn bara þannig að hann vildi leggja meiri áherslu á LARP og er nú alfarið orðinn LARP hópur," segir Rúnar.

Hópurinn hittist reglulega til að LARP-a, ýmist á vegum félagsmiðstöðvarinnar eða á eigin vegum. Hann samanstendur af 10-20 ungmennum á aldrinum 13-16 ára.

„Við hittumst einu sinni í viku hjá okkur og svo veit ég að einhver þeirra hittast sjálf. Við erum með LARP-hittinga alla mánudaga. Yfir veturinn höfum við verið inni í Hagaskóla en þegar það tekur að vora og birta til höfum við mikið farið í Öskjuhlíðina og á Ægissíðuna,“ segir hann.

Aðspurður hvort Rúnar taki stundum sjálfur þátt í leiknum svarar hann játandi. „Ég hef stundum verið karakter sem heitir Slímon. Hann er svona dökkálfur og mikill bragðarefur,“ segir hann. 

Ungmennin sjá sjálf um að útbúa búninga og vopn.
Ungmennin sjá sjálf um að útbúa búninga og vopn. Félagsmiðstöðin Frosti

Útbúa sína eigin búninga og vopn 

Að sögn Rúnars sjá ungmennin alfarið um það sjálf að útbúa það sem til þarf fyrir LARP hittinga, svosem búninga og vopn.

„Þau smíða flest sín vopn sjálf og alla búninga og allt svoleiðis. Margir gera það heima hjá sér en við í Frosta höfum líka haldið sérstakar smiðjur til að aðstoða með það. Krakkarnir hafa líka fengið að halda smiðjur fyrir áhugasama, þar sem þau kenna öðrum hvernig á að gera hlutina,“ segir hann.

Í ljósi þess að um ungt fólk og vopn er að ræða lék blaðamanni forvitni á að vita hvort hópurinn færi eftir einhverjum sérstökum leikreglum þegar hann hittist. Rúnar segir svo vera.

„Við höfum í sameiningu búið til mjög góðar reglur sem er mjög mikilvægt að allir fylgi. Þær eru gerðar til þess að enginn slasi sig og til að allt gangi eðlilega fyrir sig. Við hvetjum alla til að lifa sig inn í leikinn og að leggja metnað í að gera hann sem mest sannfærandi,“ segir hann. 

Örugg í eigin skinni

Að sögn Rúnars er áhugi ungs fólk á LARP-i að aukast enda um öruggt leikumhverfi og frábæran félagsskap að ræða.

„Krakkarnir sem sækja LARP fundina eru mjög öruggir í eigin skinni. Hópurinn er svo samheldinn. Þau blómstra alveg ótrúlega mikið á þessum hittingum og allir eru rosalega góðir vinir. Margir þeirra sem hafa mætt á hittingana hafa eignast þar nýja vini,“ segir Rúnar að lokum.

Fjöldi LARP-hópa munu mætast með vopn á lofti í Öskjuhlíðinni á mánudag til að heyja baráttu undir eftirliti félagsmiðstöðvanna sem þeir tilheyra.

Á mánudag munu ungmennin úr Félagsmiðstöðinni Frosta mæta LARP-hópum annarra …
Á mánudag munu ungmennin úr Félagsmiðstöðinni Frosta mæta LARP-hópum annarra félagsmiðstöðva í bardaga í Öskjuhlíð. Félagsmiðstöðin Frosti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert