Sautján flugvélar áforma að lenda á Keflavíkurflugvelli á morgun og segir forstöðumaður sóttvarnahúsa að morgundagurinn verði líklega prófsteinn á nýtt fyrirkomulag hvað varðar sóttkvíarhótel. Frá miðnætti hefur fólki verið frjálst að taka sína sóttkví út utan sóttkvíarhótela, jafnvel þótt það komi til landsins frá áhættusvæðum.
Um helgina var fólki heimilt að sækja um undanþágu frá skyldudvöl á sóttkvíarhótelum. Það hafði áhrif á fjölda þeirra sem skráðu sig inn á sóttkvíarhótel í gær, þegar hátt í 30 flugvélar komu til landsins.
„Það komu aðeins færri, en það komu þó um 100 manns til okkar í gær. Það er töluvert mikið færra en verið hefur á svona stórum dögum,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnahúsa.
Áður komu 300 til 400 manns á sóttkvíarhótel á stórum dögum, það hafði þó dregist aðeins saman upp á síðkastið þegar 200 til 300 manns komu á sóttkvíarhótel á stórum dögum.
„Ef við getum eitthvað lært af [gærdeginum] mun fækka töluvert í húsum hjá okkur á næstu dögum. Morgundagurinn verður dagurinn sem við getum miðað við, þá eru margar vélar á leið til landsins, þær eru ekki margar í dag. Þá áttum við okkur betur á því hvernig þetta mun þróast,“ segir Gylfi.
„Ég held að morgundagurinn verði svolítill prófsteinn á það hvernig framhaldið verður.“
Reglugerð um skyldudvöl á sóttkvíarhóteli féll úr gildi á miðnætti. Nú ber því engum skylda til þess að dvelja á sóttkvíarhóteli, sama hvaðan fólk kemur til landsins. Þrátt fyrir það hefur engu sóttkvíarhóteli verið lokað.
„Það eru ekki gestir á þeim öllum eins og staðan er núna en við getum sagt að útidyrahurðin sé ólæst, svo við getum hlaupið inn ef á þarf að halda,“ segir Gylfi.
Samningur Rauða krossins við Sjúkratryggingar Íslands um sóttkvíarhótel rennur út í lok júní.
„Svo erum við áfram með rekstur á farsóttarhúsunum. Það er alveg áfram vel inn í árið, upp á það að gera að geta tekið á móti fólki sem þarf annaðhvort að vera í einangrun eða í sóttkví eftir útsetningu,“ segir Gylfi.