Nú fer virkilega að reyna á hjarðónæmið

„Ég vonast til þess að hjarðónæmið muni hjálpa okkur verulega …
„Ég vonast til þess að hjarðónæmið muni hjálpa okkur verulega núna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Arnþór

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að í takt við útbreidda bólusetningu gegn Covid-19 sé farið að reyna á hjarðónæmið í samfélaginu. Hann segir ágætt að enginn hafi greinst smitaður í gær en óhjákvæmilega muni kórónuveirusmit koma upp að nýju.

Rúmlega 90.000 manns eru fullbólusettir gegn Covid-19 og þá eru tæplega 80.000 manns hálfbólusettir, þ.e. hafa fengið einn skammt af bóluefni og eiga eftir að fá annan. 

„Auðvitað vonumst við til þess að þetta muni halda nokkuð vel. Það er búið að bólusetja gríðarlega marga. Nú fer virkilega að reyna á þetta hjarðónæmi sem við höfum verið að tala um, sjá hvernig það mun vernda yngri hópana,“ segir Þórólfur. 

„Við vitum að fólk hefur slakað á um helgina, í veislum og öðru slíku. Því reynir núna á það að sjá hvað muni gerast. Það eru niðurstöður að berast erlendis frá sem benda til þess að þessi óbeinu áhrif, hjarðónæmisáhrifin, séu gríðarlega góð á yngri aldurshópa og við vonum að það muni hjálpa okkur að koma í veg fyrir einhverja útbreiðslu hjá þeim hópum,“ segir Þórólfur.

3.000 sýni tekin en engin smit

Aðspurður segir hann að hjarðónæmi náist ekki við einhverja sérstaka prósentu bólusettra.

„Hjarðónæmi er þessi áhrif sem bólusetningin hefur á verndun hjá óbólusettum. Ég vonast til þess að hjarðónæmið muni hjálpa okkur verulega núna.“

Þrátt fyrir að engin smit hafi greinst í gær voru tæplega 3.000 sýni tekin. Aðspurður segir Þórólfur að aðrar sýkingar en Covid-19 séu að ganga eins og vant er, þó hefur heldur minna verið um öndunarfærasýkingar en almennt er á þessum árstíma.

„Það eru öndunarfærasýkingar og niðurgangspestir. Við hvetjum fólk sem er með svoleiðis einkenni til þess að fara í sýnatöku,“ segir Þórólfur.

Óalgengt að fólk afþakki bólusetningu

Dregið verður í handahófskennda bólusetningu á höfuðborgarsvæðinu í dag en slík bólusetning er hafin víða á landsbyggðinni. Í Reykjavík verða líklega árgangar 1975 til 2005 í pottinum. Þórólfur segir að væntanlega verði það þannig að dregið verði á hverjum stað úr þeim árgöngum sem hafa ekki verið bólusettir í tengslum við aldur.

Engin afhendingaráætlun er til staðar fyrir bóluefni AstraZeneca frekar en fyrri daginn. Nú er fólk ekki bólusett með bóluefni AstraZeneca nema það hafi fengið fyrsta skammtinn af efninu. Það er gert til þess að spara efnið sem berst til landsins fyrir síðari bólusetningu. Þórólfur segir að það sé ekki útlit fyrir að einhver vandræði muni koma upp vegna skammtafjölda og seinni bólusetningar AstraZeneca-hópsins. Þá eru íslensk heilbrigðisyfirvöld ekki að falast eftir aukaskömmtum af bóluefninu frá Norðmönnum, sem nota ekki bóluefnið. 

Þá segir Þórólfur óalgengt að fólk hafni bólusetningu hér á landi, þótt einhverjir láti ekki sjá sig. Hann segir ekki útlit fyrir að fólk sem vinni með viðkvæmum hópum muni verða skyldað í bólusetningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert