Segir íbúa ánægða með styttri afgreiðslutíma

Íbúar í miðbænum eru almennt ánægðir með styttri afgreiðslutíma veitinga- …
Íbúar í miðbænum eru almennt ánægðir með styttri afgreiðslutíma veitinga- og skemmtistaða að sögn Arnars. mbl.is/Arnþór

Arnar Guðmundsson, formaður Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur, segir að afgreiðslutími veitinga- og skemmtistaða í miðbænum hafi verið til umræðu hjá stjórn samtakanna og að íbúar séu almennt jákvæðir fyrir styttri afgreiðslutíma.

Fólkið er frekar ánægt með að tíminn hafi verið styttur aðeins. Það er held ég orðið vanara því núna að fara fyrr af stað og að hlutirnir klárist fyrr,“ segir Arnar í samtali við mbl.is.

Samkvæmt tölfræðigögnum lögreglunnar hefur afbrotum í miðbænum fækkað um rúmlega helming síðan afgreiðslutími veitinga- og skemmtistaða var styttur vegna faraldursins.

Að sögn Arnars verða þeir íbúar sem búa í návígi við skemmtistaði bæjarins fyrir minna ónæði nú eftir að afgreiðslutími staðanna var styttur. 

„Sums staðar í miðbænum er návígi íbúa við skemmtistaði mjög mikið. Þeir sem búa næst þeim stöðum sem eru opnir hvað lengst vilja meina að það sé meiri ró yfir svæðinu núna. Það er ekki eins mikið um þessar næturferðir og það ónæði sem því fylgir. Íbúar skynja það alveg,“ segir hann.

Arnar Guðmundsson, formaður Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur.
Arnar Guðmundsson, formaður Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur.

Annar taktur víða erlendis

Arnar segir annan takt tíðkast víða erlendis og að til séu leiðir sem gera fólki kleift að skemmta sér lengur ef það vill, án þess að ónáða aðra.

„Við þekkjum það bara víða erlendis að þar er takturinn annar. Hlutirnir eru einfaldlega að gerast fyrr og fólk að fara fyrr af stað. Þeir sem vilja halda áfram geta svo fært sig á þá staði sem hafa heimild til þess að hafa opið lengur.

Þeir staðir eru þá skilgreindir sem einhvers konar næturklúbbar og eru þá ekki alveg ofan í byggð þar sem fólk býr. Þannig er þetta víða og það er alveg spurning hvort við eigum ekki að nota tilefnið og tækifærið og eiga samtalið um þetta núna.“

Vilja taka þátt í samtalinu

Íbúasamtökin vilja gjarnan taka þátt í samtalinu um styttri afgreiðslutíma veitinga- og skemmtistaða, að sögn Arnars. Það sé svo von hans að veitingahúsaeigendur sýni vilja til þess líka.

„Við værum mjög til í að eiga aðkomu að einhverju samtali við borgina, veitingahúsaeigendur og fleiri um það hvernig fólk sér framhaldið fyrir sér. Við höfum ekki mótað neinar ákveðnar kröfur einmitt núna en það hefur komið til tals hvort að við ættum ekki að fá að verða hluti af þessu samtali. 

Við höfum heyrt að hluti veitingastaðaeiganda sé opinn fyrir því að ræða þetta. Það er spurning hvort veitingamenn séu sjálfir tilbúnir að hugsa eitthvað af þessu aðeins upp á nýtt, nú þegar hlutir eru að fara breytast. Við erum alla vega til í að ræða þetta og við höldum og vonum það að veitingahúsaeigendur séu tilbúnir að skoða þetta.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert