Baldur S. Blöndal
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segist nú leita svara við því hvort njósnað hafi verið um íslenska ráðamenn í gegnum dönsku leyniþjónustuna. Utanríkisráðuneytið hefur þegar leitað upplýsinga hjá sendiráði Danmerkur og danska varnarmálaráðuneytinu.
Guðlaugur vildi í samtali við mbl.is ekki tjá sig um hvernig brugðist yrði við þeim fregnum. Þar væri best að taka eitt skref í einu og komast fyrst að því hvaða staðreyndir liggi fyrir um málið.
Hvaða fyrirbyggjandi ráðstafanir eru hér á landi sem koma í veg fyrir njósnir?
„Það sem ég hef lagt áherslu á er að við eflum netöryggi. Þess vegna hef ég sett fjölþætta deild inn í varnarmálaskrifstofu, sem ég endurvakti þegar ég kom inn sem ráðherra. Sömuleiðis erum við að taka þátt í öryggisvarnarsamstarfi með öðrum ríkjum,“ sagði Guðlaugur.
Telurðu að þetta muni hafa áhrif á milliríkjasamstarf milli Íslands og Danmerkur og hafið þið rætt málið við önnur ríki?
„Við skulum byrja á því að sjá hvað er í þessu áður en við leggjum eitthvað út af því. Það segir sig sjálft að svona mál eru ekki góð," sagði hann þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum fyrir framan Ráðherrabústaðinn.