Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri fékk bréf frá aðilum tengdum Samherja í kjölfar viðtals hans við Stundina í apríl. Þessu greindi Kjarninn frá í dag.
Í viðtalinu sagði Ásgeir Íslandi að miklu leyti stjórnað af hagsmunaöflum og kallaði eftir aukinni vernd fyrir starfsmenn eftirlitsstofnana. Hann harmaði það að fimm starfsmenn Seðlabankans hefðu verið kærðir til lögreglu eftir rannsókn Seðlabankans á gjaldeyrisviðskiptum Samherja.
Í svari Seðlabankans við fyrirspurn Kjarnans kom fram að bréf hefði borist en að efni þess væri trúnaðarmál. Þar væri um að ræða samskipti milli Seðlabanka Íslands og þriðja aðila sem þyrfti dómsúrskurð eða lagaboð til að bankanum yrði gert að láta af hendi. Kjarninn hefur kært þessa ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.