Kristófer Oliversson, formaður félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu og framkvæmdastjóri Center Hotel segir það ónæði sem stafar stundum frá skemmtistöðum geta verið hótelrekendum og -gestum til ama. Endurskoða megi staðsetningu þessara staða þar sem næturfriður er mikils virði fyrir hótelrekendur og gesti þeirra.
„Ég held að það sé almenn skoðun hótelmanna að næturfriðurinn sé mikils virði en það er því miður ekki einfalt að ná utan um ástandið í miðborginni með breyttum reglum. Vandinn er að í gegnum árin hafa sumir skemmtistaðir tekið upp á því að setja hátalara út á götu eða opna dyr og spila tónlist þannig að allt hverfið leikur á reiðiskjálfi langt fram eftir nóttu. Það eru þessir örfáu aðilar sem gera öðrum erfiðara fyrir. Maður skilur alveg að fólk vilji hafa aðgang að slíkum stöðum en það mætti þá endurhugsa staðsetningu þeirra. Við viljum alls ekki fara aftur til þess tíma þar sem öllum stöðum var gert að loka á sama tíma og úr varð útihátíð á götum borgarinnar um miðjar nætur,“ segir hann.
Aðspurður hvort hann þekki til þess að hótel hafi þurft að endurgreiða gestum gistingu vegna hávaðakvartana svarar Kristófer játandi.
„Það er alveg gert í umtalsverðu mæli. Það þekkja allir hótelrekendur. Það er vandlifað þegar við viljum líflega miðborg og næturfrið á sama tíma. Þetta tvennt fer ekki alltaf saman en við reynum að gera gestum sem velja miðborgina grein fyrir því fyrir fram að næturlífið er stundum hávært.“
Kristófer fagnar umræðunni um afgreiðslutíma veitinga- og skemmtistaða í miðborg Reykjavíkur og segir lengi mega gott bæta í þeim efnum. Menn þurfi þó að vilja ræða málin í sameiningu.
„Besta leiðin í þessu, eins og svo mörgu öðru er að menn ræði málin og eins að veitingamenn reyni að lágmarka hávaða utanhúss og hótelmenn hljóðeinangri hótelin eins og kostur er. Ég er mjög sammála því að við þurfum að ræða þessi mál. Vandinn í þessu er að það eru alltaf einhverjir aðilar sem virða ekki reglur. Almennt er betra að hafa reglurnar fáar en þess sé jafnframt gætt að þeim sé framfylgt. Ég hef þá trú að við færumst hægt og bítandi til betri vegar með þetta eins marga hluti í okkar ágæta samfélagi en ég held við yrðum ekki verri miðborg ef við færum aðeins fyrr að sofa,“ segir hann að lokum.