Síðasti mánuður stjórnlaus

Fyrirtækið Midgard stendur nú í ströngu að annast bókunarfyrirspurnum í …
Fyrirtækið Midgard stendur nú í ströngu að annast bókunarfyrirspurnum í sumar

Síðastliðinn mánuð hafa bókanir hrúgast inn hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Midgard á Hvolsvelli en að sögn Bjargar Árnadóttur, framkvæmdastýru, hefur hún aldrei upplifað jafn mikið vinnuálag eins og undanfarna daga.

„Um leið og þeir opnuðu fyrir fullbólusetta einstaklinga þá byrjaði þetta,“ segir Björg glaðleg í samtali við mbl.is en hún er spennt að fá loksins að taka á móti ferðamönnum, bæði íslenskum sem erlendum.

Björg segir stöðuna engan veginn í líkingu við sumarið 2019 en engu að síður sé hröð aukning bókana síðastliðinn mánuð langt umfram það sem starfsmenn Midgard áttu von á „Brjálæðið er tengt hraðanum á vextinum. Við vorum með autt bókunarskjal og núna erum við með nóg að gera.“

Ekki allir komast að

Fyrirtækið Midgard er ferðaþjónustuskrifstofa sem býður viðskiptavinum sínum upp á gistingu, veitingar og sérsniðnar ferðir um náttúru Íslands. Á morgun verða bæði veitingastaðurinn og gistingin opnuð formlega en Björg er spennt að sjá hvernig sumarið muni þróast.

„Á ákveðnum tímum höfum við þurft að segja nei við fólk, sérstaklega í gistingunni. Það eru alltaf einhver laus pláss á milli en það er erfiðara að koma stórum hópum að sem ætla sér að vera lengi.“

Þá finnur Björg fyrir því að fólk leggi meiri metnað í ferðirnar sínar og segir hún að ekkert mál sé að bjóða fólki upp á auka þjónustu um þessar mundir.

Skertur opnunartími og ráðningarstyrkir hjálpa

Í fyrra tókst Midgard að halda fyrirtækinu opnu með skertum opnunartíma og sveigjanlegum starfskröftum en að sögn Bjargar þá voru starfsmennirnir duglegir að stökkva til og taka að sér fjölbreytt verkefni. Vann hún sjálf sem framkvæmdastýra, leiðsögumaður og jógakennari fyrir fyrirtækið auk þess sem hún tók að sér tilfallandi verkefni.

Þá telur Björg ráðningastyrkina einnig gífurlega mikilvæga til að halda fyrirtækinu gangandi í ár.

„Ég þori til dæmis að ráða inn þó að staðan sé ótrygg og þó ég viti ekki hvort þessi hraði komi til með að halda sér. Ég veit að ég er að minnsta kosti með lágmarkskostnað af starfsmanni í ákveðinn tíma.“

Er þá næstum orðið fullmannað á Midgard í sumar en Björg segist ekki hafa lent í miklum vandræðum að fylla stöðurnar enda næstum allir starfsmennirnir tilbúnir að koma til baka að undanskildum þeim sem eru nú í fæðingarorlofi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert