Viðamiklar aðgerðir fyrir gerendur í ofbeldismálum voru kynntar á opnum fundi ríkislögreglustjóra í dag en fundurinn bar yfirskriftina „Ekkert ofbeldi án gerenda.“
Í upphafi fundarins sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri tilgang fundarins vera að taka frekari skref til að vinna gegn ofbeldi. Þá velti hún fram spurningunni um það hvernig best sé að ná til gerenda.
„Við vitum öll að til þess að koma í veg fyrir ofbeldisbrot þurfa gerendur að hætta að beita ofbeldi. Hingað til hafa þó úrræði fyrir gerendur verið afar takmörkuð,“ sagði Sigríður.
Aðgerðirnar sem kynntar voru á fundinum í dag fela annars í sér þróun á hvatningarsamtölum forvarnarteyma með geranda, þróun fræðsluefnis fyrir sérfræðinga og almenning, áframhaldandi þróun og innleiðing áhættumatskerfis bæði fyrir ofbeldi í nánum samböndum og varðandi áhættu á kynferðisbrotum gegn börnum. Auk þess verða verkferlar lögreglu við að draga úr áhættu á frekari brotum sakborninga þróaðir áfram.
Tillögurnar koma frá aðgerðateymi gegn ofbeldi sem sett var á fót í maí 2020 af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Teymið er skipað þeim Eygló Harðardóttur og Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra.
„Það er afskaplega mikilvægt að markviss meðferð fyrir gerendur ofbeldis sé í boði og úrræði þar sem gerendur fá faglega aðstoð við að ná tökum á hegðun sinni. Þá er einnig mikilvægt að lögregluþjónar séu þjálfaðir og með réttu tæknina sem hjálpar þeim í starfi sínu. Við þurfum að ráðast á ofbeldi frá öllum hliðum og þessi skref sem við erum að stíga hér í dag eru stór skref í þá átt,“ segir Ásmundur í tilkynningu.
„Ég tel mikilvægt að gripið sé til fyrirbyggjandi aðgerða í ofbeldismálum og ég bind miklar vonir við að þessar nýju áherslur munu skila árangri. Þetta eru erfið og flókin mál sem ekki verða leyst nema með því að vinna bæði með gerendum og þolendum ofbeldis. Mikilvægt er að styðja áfram við bakið á þolendum ofbeldis en það er ekki síður mikilvægt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gagnvart gerendum,“ segir Áslaug í sömu tilkynningu.
Á fundinum var úrræðið „Heimilisfriður“ kynnt en það er eitt helsta úrræðið sem hefur verið í boði fyrir þá sem vilja hætta að beita ofbeldi í nánum samböndum. Þá var einnig kynnt nýtt úrræði sem ber undirskriftina „Taktu skrefið“. Þar aðstoðar hópur sálfræðinga þá sem hafa áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni eða hafa beitt kynferðisofbeldi. Á vefsíðu neyðarlínunnar, 112.is, má nú finna upplýsingar um þessi úrræði ásamt miklu magni upplýsinga um ofbeldi og annarra úrræða.
Einnig var farið yfir það á fundinum hver birtingarmynd ofbeldis er hér á landi miðað við núverandi stöðu, hvernig staðið er að rannsóknum á heimilisofbeldi og kynferðisbrotum hjá lögreglunni í dag, þjálfun lögreglunnar og hvernig þróun á áhættumati og verkferlum lögreglunnar getur nýst okkur til að gera enn betur í baráttunni gegn ofbeldi.
„Fókusinn er á gerendur og hvernig við getum hindrað ofbeldi en ekki aðeins brugðst við ofbeldi,“ sagði Sigríður.
Þá nefndi hún á fundinum hve mikilvægt það er að fólk leiti sér aðstoðar sem fyrst.
„Því fyrr sem mál koma til okkar. Því meiri líkur eru á að við getum leitt mál til lykta. Því meiri líkur eru á að við getum hjálpað og stöðvað ofbeldið.“
Í lok fundarins fóru fram pallborðsumræður þar sem Rannveig Þórisdóttir, afbrotafræðingur og forstöðumaður þjónustusviðs ríkislögreglustjóra, Þóra Jónasdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglustöð 3 Kópavogi, Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar LRH, Ólafur Örn Bragason, réttarsálfræðingur og forstöðumaður Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar sátu fyrir svörum áhorfenda en þau voru öll með erindi á fundinum.