„Það er ekki gott ef að verkefnin í utanríkisþjónustunni, sem eru risavaxin, og kynning á þeim vindur fram eftir því hvort að ráðherrar að hverju sinni séu í prófkjöri eða ekki. Mér finnst það ekki boðlegt,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar í samtali við mbl.is.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, kynnti í morgun nýjan fríverslunarsamning Íslands við Bretland og gagnrýndu þingmenn stjórnarandstöðunnar ráðherra harðlega á þingfundi í dag fyrir samráðsleysi. Þingmenn furðuðu sig á því að heyra fyrst af málinu í gegnum fjölmiðla; málið hefði fyrst átt að kynna fyrir utanríkismálanefnd þingsins.
Þorgerður, sem situr í utanríkismálanefnd, segist vera mjög ánægð að samningar hafi náðst, með öllum fyrirvörum um innihald samningsins. Samningurinn verður kynntur fyrir nefndinni í næstu viku og segir Þorgerður af og frá að það hafi ekki gerst fyrr.
Spurð út í athugasemd Sigríðar Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns utanríkismálanefndar, á þingfundi um að áhugi hafi ekki legið fyrir hjá stjórnarandstöðunni um kynningu á samningnum segir Þorgerður það einfaldlega vera rangt.
„Það eru reglur inn á þingi sem okkur ber að fara eftir. Hvorki utanríkisráðherra né formaður utanríkismálanefndar hafa haft frumkvæði að því að því að kynna samningin einhvern tímann í ferlinu. Þetta er búið að vera gerjast í marga mánuði og þau hefðu átt að taka þetta fyrir á einhverjum fundum. Þetta hefði ekki verið neitt mál hefðu menn bara kynnt þetta strax og farið yfir hlutina, við hefðum verið tilbúin strax.“
Þorgerður nefnir þó að sjaldan hafi verið fundir hjá nefndinni verið felldir jafnoft niður og þennan veturinn. „Það er annar bragur á þessu heldur en þegar til dæmis Áslaug Arna var formaður.“
„Vandið ykkur betur. Hagsmunir þjóðarinnar eru undir en ekki einstaklinga í prófkjöri,“ segir Þorgerður.