„Það sem vekur athygli er góð útkoma kvenna. Að það séu þrjár konur í fjórum efstu sætunum er óvenjulega góð niðurstaða fyrir konur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík,“ segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur í samtali við mbl.is.
Hún segir í sjálfu sér fátt annað koma á óvart „nema kannski að Brynjar Níelsson hafi túlkað úrslitin þannig að það sé ástæða til að taka ekki sæti á lista“.
Stefanía segir árangur Brynjars alls ekki slæman sérstaklega miðað við að hann rak ekki mikla kosningabaráttu.
Brynjar hafnaði í fimmta sæti en sóttist eftir öðru. Fimmta sæti gefur alla jafnan þriðja sæti á framboðslista til Alþingis og líklegt þingsæti eða baráttusæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann lýsti því yfir í gær að hann hygðist hafna sætinu.
„En það er tækifæri fyrir Kjartan Magnússon sem að kom sterkur inn í þessu prófkjöri. Hann hefur sýnt það í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins til borgarstjórnar að hann hefur átt mjög góðan stuðning,“ segir Stefanía.
Spurð út í kosningu Guðlaugs Þórs og Áslaugar Örnu, sem bæði sóttust eftir fyrsta sæti í prófkjörinu, segir Stefanía ljóst að meirihluti kjósenda hafi ekki kosið eftir „blokkum“. Guðlaugur og Áslaug voru með afgerandi fjölda atkvæða ýmist í fyrsta eða annað sæti í prófkjörinu.
„Það er bara harðasta stuðningsfólk annars hvort frambjóðanda sem kýs eftir blokkum. Hinn almenni flokksmaður kýs Guðlaug og Áslaugu eða öfugt, eftir því sem hann telur best,“ segir Stefanía.