Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, mun flytja ræðu í svokölluðum eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Verður það í síðasta skipti sem Steingrímur tekur þátt í þessum lið Alþingisumræðna en hann mun hætta á þingi að þessu kjörtímabili loknu.
Árlegar eldhúsdagsumræður fara fram í kvöld á Alþingi og hefst útsending klukkan 19.30.
Venju samkvæmt ríður fulltrúi stærsta stjórnarandstöðuflokksins, sem verður í kvöld Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, á vaðið og heldur fyrstu ræðu kvöldsins. Allir flokkar fá þrjá fulltrúa en Inga Sæland mun flytja tvær ræður þar sem hún og Guðmundur Ingi Kristinsson eru tvö í þingflokki.
Enginn þingmaður stendur utan flokka í dag eftir að Andrés Ingi Jónsson gekk til liðs við Pírata og Rósa Björk Brynjólfsdóttir gekk í raðir Samfylkingarinnar.
Röð flokkanna verður þessi í öllum umferðum: Miðflokkurinn, Sjálfstæðisflokkur, Samfylkingin, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, Píratar, Framsóknarflokkur, Viðreisn og Flokkur fólksins.
Hefur hver þingflokkur átta mínútur í fyrstu umferð, fimm mínútur í annarri og fimm mínútur í síðustu umferð.