Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður þingflokks Pírata, gagnrýndi leiðtoga ríkisstjórnarinnar harðlega í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum Alþingis í kvöld.
Þar skaut hún föstum skotum á forsætis- og fjármálaráðherra vegna viðbragða þeirra við orðum sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lét falla í viðtali í vor um að margir hagsmunahópar séu fyrirferðarmiklir í stjórnkerfinu.
Þá sagði Þórhildur Sunna að þar hafi opnast tækifæri á þarfa umræðu um hvernig samfélag við viljum vera.
„Leiðtogar ríkisstjórnarinnar höfðu engan áhuga á því samtali. Þannig snerust fyrstu viðbrögð forsætisráðherra ekki um það sem seðlabankastjóri sagði, heldur um það að blaðamaðurinn sem tók viðtalið hefði átt að krefja Ásgeir um dæmi,“ sagði Þórhildur Sunna og hélt áfram: „Eins og hún þekki bara engin dæmi.“
„Þykir okkur sem samfélagi eðlilegt að opinberir starfsmenn í mikilvægum eftirlitsstofnunum eigi á hættu að vera kærðir persónulega af þeim sem eftirlitið beinist að?“ sagði Þórhildur og vísaði þar til kæru Samherja á hendur fimm starfmönnum Seðlabankans.
„Inntur eftir viðbrögðum sagði fjármálaráðherra að embættismenn með mikil völd verði auðvitað að vita það að ef þeim er misbeitt geti það haft afleiðingar,“ sagði hún og sakaði fjármálaráðherra um hræsni.
„Þá vitum við það. Fjármálaráðherrann, sem aldrei hefur sætt afleiðingum fyrir að misbeita valdi sínu, sama hversu gróflega hann gerir það, vill að starsfólk eftirlitsstofnana óttist afleiðingar eftirlitsstarfa sinna,“ sagði hún.
„Er þetta samfélagið sem við viljum? Samfélag meðvirkni, afkomuótta og samtryggingar? Samfélag þar sem er verra að benda á brotin en að fremja þau?“ sagði Þórhildur Sunna og sagði þetta sömu gerendameðvirknina og þöggunaraðferðina sem íslenskar konur hefðu nú sagt stríð á hendur og vitnar þar í nýju bylgju #MeToo sem hefur verið fyrirferðarmikil í netheimum undanfarnar vikur.
Loks sagði Þórhildur Sunna að fram undan væru kosningar og markmið Pírata væru að embætti skattrannsóknarstjóra væri „tekið upp úr skúffunni sem fráfarandi ríkisstjórn stakk því ofan í,“ að það og aðrar eftirlitsstofnanir hefðu bolmagn til að sinna skyldum sínum og að starfsmenn þeirra njóti verndar gegn persónulegum ofsóknum hagsmunahópa.
Auk þess sagði hún að Píratar vildu tryggja fjölmiðlafrelsi með betri réttarvernd blaðamanna og mótvægisaðgerðum gegn afskiptum hagsmunaafla. Þá sagði hún Píratar vildu endurskoðun á kvótakerfinu til að mynda með því að setja „alvöruhömlur“ á eignarhald fiskveiðikvóta og „alvörugjald“ fyrir nýtingarrétt á öllum sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar auk lögfestingar á nýrri stjórnarskrá.