Framkvæmdir sem miða að því að loka að hluta til fyrir gatnamót Lágmúla og Háaleitisbrautar standa nú yfir. Verður því ekki lengur mögulegt að taka vinstri beygju úr Lágmúlanum yfir á Háaleitisbraut.
Tekin var ákvörðun um að loka þessari leið til að auka umferðaröryggi að sögn Guðbjargar Lilju Erlendsdóttur, yfirverkfræðings hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.
Umferðaróhöpp eru tíð á þessu svæði sem má meðal annars útskýra í ljósi þess að bílar þurfa að þvera tvær akreinar til að komast yfir á Háaleitisbraut, að sögn Guðbjargar. Flokkast þá gatnamótin undir svokallaða slysstaði.