Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að það sé engin leið á þessum tímapunkti að spá fyrir um hvernig sumri landsmenn megi búast við.
„Það er gerð spá einu sinni í mánuði sem var nú gerð fyrir júní, júlí og ágúst og þær voru bara allar út og suður,“ segir Einar. Því hafi ekki verið neitt um veðurspá sumarsins sem hönd er á festandi.
„Það er engin leið til þess að spá um hvort þetta verði rigningar- eða blíðviðrissumar."
„Þessi spá er reiknuð á um átta til tíu stöðum um heiminn og stundum sér maður einhverjar ákveðnar línur í þeim en þær eru ekki fyrir Ísland. Annaðhvort eru ríkjandi sunnanáttir eða ríkjandi norðanáttir þannig að þegar þær voru allar teknar saman þá núllast þetta út,“ segir Einar og bætir við að því komi spáin út eins og það verði algjört meðalveður.
„Þetta getur þýtt tvennt fyrir landið, annarsvegar að það sé of mikil óreiða og breytileiki og því ráði spárnar ekki við ástandið, eða þá að við fáum sitt lítið af hverju í sumar,“ segir Einar en hann hefur fylgst með þessum spám í mörg ár og segir þetta tilvik ekki einstakt, þær séu stundum svona flöktandi.
Þannig að þessi óvenju góði maí er ekki endilega spá um gott sumar?
„Nei, hann segir ekkert fyrir. Hann var auðvitað afleiðing af afbrigðilegri lofthringrás, sérstaklega yfir Norður-Atlantshafi. Það hafði ekki bara áhrif hér heldur um alla Evrópu þar sem var frekar kalt og sums staðar úrkomusamt. Hér hjá okkur var hins vegar bæði kalt og þurrt.“
Úrkoma í maí í Reykjavík hafði aðeins einu sinni verið minni síðustu 100 árin en meðalúrkoma var 1%. Þá var einnig óvenju sólríkt en sólskinsstundir voru 153. Meðalhiti í byrjun maí var þó einungis um 4 stig í Reykjavík.