Nokkur hiti er í baráttunni um efstu sætin í yfirstandandi prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, að fyrsta sætinu undanskildu. Formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, er einn um oddvitasætið en aðrir þingmenn flokksins í kjördæminu bjóða sig allir fram í annað sæti.
Það eru þau Bryndís Haraldsdóttir, Óli Björn Kárason og JónGunnarsson. Jón Gunnarsson var í öðru sæti í síðasta prófkjöri árið 2016, Óli Björn í þriðja sæti og Bryndís Haraldsdóttir varð í fimmta sæti en var færð upp í annað sætið vegna kynjasjónarmiða.
Áhugavert verður að fylgjast með gengi Vilhjálms Bjarnasonar, fyrrverandi þingmanns, í prófkjörinu, sem býður sig fram í 2. til 3. sæti. Hann lenti í fjórða sæti í síðasta prófkjöri flokksins árið 2016 en færðist niður í fimmta sætið er Bryndís Haraldsdóttir var færð upp listann. Óbreyttir listar voru lagðir fram fyrir alþingiskosningar 2017 vegna skamms fyrirvara á kosningunum og dugði fimmta sætið þá Vilhjálmi ekki til þingsætis, að því er fram kemur í umfjöllun um prófkjörið í Morgunblaðinu í dag.